Voru símar Alþingis hleraðir?

Julian Assange, stofnandi Wikileaks.
Julian Assange, stofnandi Wikileaks. AFP

Svo virðist sem símar Alþingis hafi að einhverju marki verið hleraðir yfir fjögurra mánaða tímabil í lok árs 2009 og byrjun árs 2010 ef marka má gögn sem birt voru á vefsíðunni Wired.com í gær. Því er haldið fram að þau innihaldi samtal á milli Julian Assange, stofnanda Wikileaks-uppljóstrunarsíðunnar, og Chelsea Manning sem þá hét Bradley og var fyrr á þessu ári dæmd af herdómstól í Bandaríkjunum fyrir að leka miklu magni af gögnum í eigu bandaríska ríkisins en þeim kom hún til Wikileaks sem aftur hefur birt þau á netinu.

Samtalið mun hafa verið notað sem sönnunargagn í dómsmálinu gegn Manning. Þar ræðast við einstaklingar sem kalla sig Nathaniel Frank, og sagt er að sé Assange, og Nobody sem mun vera Manning. Samtalið átti sér stað á tímabilinu 5. - 18. mars 2010 og þar farið um víðan völl. Minnst á mál tengd Íslandi nokkrum sinnum en Assange mun hafa verið staddur hér á landi á þeim tíma.

Fékk afhent gögn frá uppljóstrurum

Þannig segir Nathaniel Frank þann 8. mars að svo virðist sem þeir hafi undir höndum upptökur af öllum símtölum Alþingis yfir fjögurra mánaða tímabil. Síðar í samtalinu minnist hann aftur á upptökurnar og segir að þær nái til síðustu fjögurra mánaða. Enn síðar segist Nathaniel Frank hafa afhent uppljóstrurum hér á landi „lista yfir hluti sem við vildum“ og þeir hafi afhent síðustu fjóra mánuði íslenska þingsins. Ekki kemur fram hverjir þessir uppljóstrarar eru sem afhent hafi gögnin.

Nathaniel Frank talar síðan á öðrum stað í samtalinu um að fylgst sé með sér hér á landi. „Stakk annan njósnara af nú síðdegis,“ segir hann meðal annars og bætir við til skýringar að hann hafi verið „local“ eða heimamaður. „Lögreglumaður, fylgist með einu af hótelunum mínum.“ Síðan segist hann hafa fengið það staðfest af innanbúðarmanni, væntanlega hjá lögreglunni, að fylgst væri með sér.

Gerist á sama tíma og tölvumálið

Í beinu framhaldi segir Nathaniel Frank að hann hafi nýverið komið höndum yfir 800 blaðsíður af yfirheyrsluskjölum og önnur 40 gígabæti af hérlendum bankaupplýsingum og upplýsingum um einkavæðingar. Síðan bætir hann við: „Þetta land á eftir að bráðna.“ Ekki kemur nánar fram í samtalinu um hvaða upplýsingar sé að ræða. Til að mynda hvort það tengist einkavæðingu íslensku bankanna fyrir rúmum áratug síðan eða í kjölfar hrunsins.

Það vekur athygli að samtalið fer fram um það leyti sem óþekkt tölva fannst í húsakynnum Alþingis sem enginn kannaðist við að eiga. Allar merkingar höfðu verið afmáðar af henni og fingraför og var talið að hún hefði hugsanlega verið notuð til þess að komast yfir gögn af netkerfum þingsins. Aldrei fékkst endanlegur botn í það mál en tölvan fannst í febrúar 2010 í auðu herbergi á milli skrifstofa þingflokks Hreyfingarinnar og þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Herbergið var ætlað til afnota fyrir varaþingmann Hreyfingarinnar ef á þyrfti að halda. Grunur lék á að Wikileaks tengdist málinu.

Fagnaði sigri vegna Icesave

Ennfremur má geta þess að meðal þess sem rætt er um í samtalinu er fyrri þjóðaratkvæðagreiðslan hér á landi um Icesave-málið sem fram fór 6. mars 2010. Daginn eftir fagnar Nathaniel Frank vegna hennar og segir: „Við unnum þjóðaratkvæðið - aðeins 1,4% greiddu atkvæði á móti.“ Hann spyr síðan hversu frábært það sé og segir ennfremur ranglega að þetta hafi verið fyrsta þjóðaratkvæðið í sögu landsins.

Nobody svarar og segist ekki vita hversu mikil áhrif Nathaniel Frank hafi haft í þeim efnum þó hann sé viss um að þau hafi verið einhver. Þá má geta þess að annað slagið er einnig rætt í samtalinu um stofnunina IMMI sem er alþjóðleg stofnun um upplýsinga- og tjáningarfrelsi með aðsetur hér á landi.

Chelsea Manning sem áður hét Bradley.
Chelsea Manning sem áður hét Bradley. AFP
Tölvan sem fannst á Alþingi.
Tölvan sem fannst á Alþingi. mbl.is/Júlíus
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert