„Þetta er ekki sami strákurinn og hann var“

Stefán Logi Sívarsson er einn þeirra sem er ákærður í …
Stefán Logi Sívarsson er einn þeirra sem er ákærður í málinu.

„Þetta er ekki sami strákurinn og hann var 30. júní,“ sagði faðir ungs karlmanns sem sviptur var frelsi sínu í tæpan sólarhring aðfaranótt 1. júlí síðastliðins og sætti ítrekuðum og alvarlegum barsmíðum á þeim tíma af hendi nokkurra manna. Öðrum degi aðalmeðferðarinnar lauk um klukkan fjögur í dag.

Málið var höfðað gegn Stefáni Loga Sívarssyni, Stefáni Blackburn og þremur öðrum karlmönnum og eru þeir ákærðir fyrir að svipta tvo menn frelsi sínu og beita þá miklu ofbeldi. Í gær komu fórnarlömbin fyrir dóminn og sögðu sögu sína. Í dag kom svo faðir annars þeirra og greindi frá upplifun sinni 1. júlí síðastliðinn.

„Hann skilaði sér ekki til vinnu um morguninn og ég fór heim til hans klukkan tíu og hélt að ég væri að fara vekja hann, eitthvað sem ég átti ekki von á. Íbúð hans var opin og öll á rúi og stúi. Ég áttaði mig ekki á hvað hafði gerst, reyndi að hringja í hann en það var slökkt á símanum. Ég hringi í vini hans og þeir vita ekki neitt. Dagurinn fór í að leita að honum. Ég gef svo skýrslu hjá lögreglu um kvöldmatarleytið og eftir það var ákveðið að leita að honum.“

Björgunarsveitir áttu að hefja leit um kvöldið og tilkynningu átti að senda á fjölmiðla. Áður en til þess kom hringdi maðurinn í föður sinn. Þá var hann á Stokkseyri, nýsloppinn úr prísundinni. „Ég heyrði strax að það hafði eitthvað mikið gengið á.“

Brotinn á líkama og sál

Maðurinn fór að sækja son sinn á Stokkseyri og á leiðinni til Reykjavíkur rekur hann raunir sínar. „Hann upplifði það þannig að hann hefði sloppið en ekki að það hafi verið ákveðið að sleppa honum. [...] Það var mikil geðshræring og hann var bara í rúst. Vörin á honum var öll í klessu og það var á mörkunum að maður gæti skilið hann. [...] Hann var algjörlega brotinn á líkama og sál.“

Spurður út í líðan hans í dag sagði maðurinn að sonur sinn hefði hætt í vinnunni, hann þoli ekki við í Reykjavík og hafi því flutt út á land. „Allt hans venjulega líf hefur gjörbreyst og samskiptin við nánustu aðstandendur. [...] Hann er mjög oft dapur og honum líður mjög illa. [...] Hann er alltaf á varðbergi og þetta hefur haft gríðarleg áhrif á hann. Þetta er ekki sami strákurinn og hann var 30. júní.“

Aðalmeðferðin heldur áfram á morgun en óvíst er hvenær henni lýkur. Víst er þó að málinu verður frestað fram yfir 15. desember þar sem eitt þeirra vitna sem á eftir að leiða fyrir dóminn kemur ekki til landsins fyrr en þann dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert