Velur mannslíf fram yfir sérþekkingu

mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Ríkisstjórnin tilkynnti í gærkvöldi að fallið hefði verið að hluta frá stórfelldum niðurskurði á framlögum til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu. Engu að síður er niðurskurðinn um 460 milljónir króna, eins og fram kom í Morgunblaðinu í morgun og haft eftir fjármálaráðherra. Af þeirri upphæð tekur Þróunarsamvinnustofnun 40% eins og Engilbert Guðmundsson framkvæmdastjóri ÞSSÍ sagði í samtali við Rás 2 í morgun.

Í fréttabréfi Þróunarsamvinnustofunnar, Heimsljósi, segir að engu að síður sé ljóst að Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra hafi tekist að verja stofnunina og jafnframt að draga úr fyrirhuguðum niðurskurði sem átti að vera 700 milljónir. Fram kom í viðtalinu í morgun við Engilbert að niðurskurðurinn muni að mestu leyti bitna á verkefnum í jarðhitaleit í Afríku.

Dregið úr jarðhitaverkefnum

Engilbert sagði að ÞSSÍ myndi skerða þau verkefni þar sem ekki eru bein mannslíf undir. „Það, sem liggur beinast við og myndi vera skaðminnst, sýnist mér, er að við drögum úr framlögum í jarðhitaverkefnið sem er nýjasta verkefnið okkar og er svona það verkefni þar sem ekki eru bein mannslíf undir. Við erum töluvert í verkefnum sem við teljum, eins og við segjum, krónu fyrir krónu, að við björgum fleiri mannslífum heldur en með nokkurri annarri notkun á íslensku skattfé. Við viljum vernda þau verkefni eins mikið og við getum, en það er auðvitað synd að þurfa að ganga í þetta jarðhitaverkefni og skera það því þarna erum við að koma íslenskri sérþekkingu á framfæri. En mannslíf versus íslensku sérþekkinguna, þá verð ég væntanlega að velja mannslífin,“ sagði hann í viðtalinu. 

Allt frá því á sunnudag þegar Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði frá því í þættinum Sunnudagsmorgni í Sjónvarpinu að tillögur væru um nokkurra hundraða milljóna niðurskurð til þróunarmála var þeim hugmyndum mótmælt í ræðu og riti í fjölmiðlum og á samskiptavefjum. Ýmsir bentu á að hugmyndirnar væru í augljósri þversögn við samþykkta þingsályktartillögu frá því fyrr á árinu um markvissa hækkun framlaga Íslands á næstu árum að viðmiðunarmarki Sameinuðu þjóðanna um 0,7% af þjóðartekjum til þróunarsamvinnu. Miðað við boðaðan niðurskurð til málaflokksins nema framlög Íslands á næsta ári 0,22% af þjóðartekjum.

Ólíkt því sem áður hefur gerst þegar framlög Íslands hafa verið skorin niður gætti verulegrar óánægju í samfélaginu, ýtarleg umfjöllun var í flestum fjölmiðlum og fjölmargir skrifuðu pistla eða létu til sín heyra á samskiptamiðlum. Heimsljós vísar með krækjum í nokkrar af fréttum og greinum sem birst hafa síðustu dægrin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert