Sagði að „kaupin væru blekking“

Dómur féll í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag í Al Thani-málinu.
Dómur féll í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag í Al Thani-málinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dómarar við Héraðsdóm Reykjavíkur komust að þeirri niðurstöðu í Al Thani-málinu að það væri „hafið yfir skynsamlegan vafa að kaup [Al Thani á 5,01% hluti í Kaupþingi] hefðu verið blekking að stofni til.“

Við meðferð málsins í héraðsdómi vísuðu sakborningar því á bug að þeir hefðu beitt blekkingum. Tilkynningin til Kauphallar Íslands um kaup Al Thani á hlut í Kaupþingi hefði verið í samræmi við reglur. Ekki væri venja að geta um fjármögnun hlutabréfakaupa þegar viðskipti af þessu tagi væru tilkynnt.

Í dómnum segir að við mat á niðurstöðu verði að líta til þess að viðskipti Q Iceland Finance ehf. (sem var í eigu Al Thani) með 5,01% hlut í Kaupþingi banka hf. hafi verið mjög stór, sé miðað við venjulega veltu hlutabréfanna í bankanum. Þá hafi viðskiptin haft marktækar breytingar í för með sér á virði hlutabréfa í bankanum. Í tilkynningu til kauphallar var þess ekki getið að Kaupþing banki hf. hefði fjármagnað kaupin að fullu. Þá var þess ekki getið að Ólafur Ólafsson hefði komið að fjármögnun kaupanna með því að lánsféð frá Kaupþingi banka hf. rann að helmingi í gegnum félag hans.

Keypti á gengi 690 eftir að fjárfestingarsjóður hafði boðist til að kaupa á 399

Í dómnum segir að Ólafur hafi átti að njóta hagnaðar af þróun gengis hlutabréfa í bankanum. „Telur dómurinn engum vafa undirorpið að upplýsingar um þessi atriði hefðu haft áhrif á virði hlutabréfa í bankanum. Ákærðu, Hreiðar Már og Sigurður, tóku ákvörðun um hlutabréfaviðskipti Kaupþings banka hf. við Sheikh Mohamed og ákvörðun um að veita lán til félaganna Gerland Assets Ltd. og Serval Trading Group Cor. sem veittu þeim lánum áfram til félagsins Q Iceland Finance ehf. Þá liggur fyrir að lánveitingar ákærðu, Hreiðars Más og Sigurðar, voru ólögmætar að því marki sem ákærðu fóru út fyrir heimildir sínar til lánveitinga fyrir Kaupþing banka hf. Kaupandi lagði fram sjálfskuldarábyrgð fyrir helmingi kaupverðsins. Er sjálfskuldarábyrgð einungis ábyrgð þar sem kröfuhafi getur gengið að ábyrgðarmanni að skuld þegar skuldari efnir ekki samningsskyldur sínar á réttum tíma. Af þessu leiðir að fjármunir komu ekki inn í Kaupþing banka hf. við kaupin, sem bættu því ekki lausafjárstöðu bankans eða gjaldeyrisforða á erfiðum tímum á fjármálamörkuðum. Á sama tíma þurfti bankinn að gæta mikils aðhalds við útstreymi gjaldeyris úr bankanum og hafði dregið segl mikið saman að því leyti til. Í ljósi þess að ekki lá nein trygging að baki láni til Gerland Assets Ltd. bar bankinn af viðskiptunum hálfa markaðsáhættu. Loks liggur fyrir að fjárfestingarsjóðurinn Qatar Investments Authorities hafði boðið Kaupþingi banka hf. 399 krónur á hvern hlut hlutabréfa, en í viðskiptum bankans við Q Iceland Finance ehf. fáeinum dögum síðar var verð á hlut 690 krónur, eða hartnær helmingi hærra en fyrra tilboð. Var það á tíma sem „bankaáhlaup“ var í gangi. Með hliðsjón af öllu þessu telur dómurinn hafið yfir skynsamlegan vafa að kaupin hafi verið blekking að stofni til.“

Í dómnum segir að degi áður en viðskiptin voru tilkynnt hafi gengi bréfa í Kaupþingi verið 690 krónur á hlut. Þann 22. september 2008 hækkaði verð á hlut í 737 krónur á hlut og fór hæst í 755 krónur á hlut 25. sama mánaðar.

„Við ákvörðun refsingar er til þess að líta að ákærðu, Hreiðar Már og Sigurður, voru á þeim tíma er brotin voru framin æðstu stjórnendur stærsta viðskiptabanka á Íslandi. Ákærði, Magnús, var framkvæmdastjóri viðskiptabanka í samstæðu Kaupþings banka hf. og ákærði, Ólafur, einn stærsti einstaki hluthafi í bankanum í gegnum félög sín. Hin refsiverðu viðskipti ákærðu vörðuðu verulegum fjárhæðum. Eiga brotin sér ekki hliðstæðu í íslenskri réttarframkvæmd. Þá er við ákvörðun refsingar litið til þess að verulegt fjárhagslegt tjón hlaust af brotum ákærðu, sem fullframin voru á tímabilinu 18. til 23. september 2008. Eiga ákærðu sér engar málsbætur,“ segir í niðurstöðum dómsins.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert