39 metrar á sekúndu á Stórhöfða

Þó svo að það sé bálhvasst á Stórhöfða er veðrið …
Þó svo að það sé bálhvasst á Stórhöfða er veðrið betra niður í bæ í Vestmannaeyjum. mbl.is/Árni Sæberg

Mjög hvasst er víða um land og samkvæmt upplýsingum frá veðurfræðingi á Veðurstofu Íslands er hvassast á Stórhöfða eða 39 metrar á sekúndu. Þar hefur vindurinn hins vegar farið í 49 metra á sekúndu í hviðum.

Víða á Suðurlandi eru um 30 metrar á sekúndu og mjög hvasst á hálendinu. Veðrið fer hins vegar að ganga niður og verður skaplegt um hádegi. Búist er við slæmu ferðaveðri á landinu til hádegis en það lægir síðast fyrir norðan og á Norðausturlandi, samkvæmt upplýsingum frá veðurfræðingi.

Samkvæmt sjálfvirkum stöðvum Vegagerðarinnar hefur vindur farið í um 50 m/sek undir Eyjafjöllum nú undir morgun í verstu hviðum. Við Reynisfjall fer vindurinn í um 40 m/sek í hviðum Á Vatnsskarði eystra er einnig mjög hvasst eða rúmir 40 m/sek í hviðum.

Í Reykjavík hafa verið um 15 metrar á sekúndu í nótt en farið í rúma 20 metra í hviðum. Lítil úrkoma er á höfuðborgarsvæðinu en á Suðaustur- og Austurlandi hefur slydda fylgt með rokinu eða rigning.

Veðurspáin: Austan 15-25 m/s, hvassast með S-ströndinni. Dálítil snjókoma norðanlands, en annars slydda eða rigning, einkum suðaustan- og austantil. Lægir þegar líður á morguninn, hægur vindur og úrkomulítið síðdegis, en rigning eða slydda austanlands með kvöldinu. Hlýnandi veður, hiti 0 til 5 stig um hádegi.

Sjá nánar hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka