„Snúa af braut hömlulausra útgjalda“

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar Alþingis.
Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar Alþingis. mbl.is/Ómar

„Segja má að forgangsröðun sú sem birtist í nefndaráliti meirihlutans sé þjóðarsátt um fjárlög ársins 2014. Við reisum við heilbrigðiskerfið sem holað var að innan í tíð síðustu ríkisstjórnar - jafnt á Reykjavíkursvæðinu sem á landsbyggðinni,“ segir Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, sem mælti fyrir áliti meirihluta nefndarinnar á Alþingi í hádeginu.

Vigdís sagði að við forgangsröðun í grunnþjónustunni í þágu fólksins í landinu væri óþarfanum sleppt „sem sumir kalla gæluverkefni fyrri ríkisstjórnar,“ sagði hún.

„Við náum að snúa af braut hömlulausra útgjalda í ríkisrekstri í það að skila hallalausum fjárlögum og meira að segja skila örlitlum afgangi. Ný sókn er hafin virðulegur forseti undir forystu Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins,“ sagði Vigdís. 

Þá sagði hún að núverandi ríkisstjórn hefði tekið við villandi búi hvað varði rekstur ríkissjóðs. „Fjárlög síðasta árs áttu að vera með einungis 3,7 milljarða halla en þegar núverandi ríkisstjórn tók við kom í ljós að fjárlög síðasta árs voru byggð á svo veikum grunni líkt og 25,5 milljarða halli ársins gefur til kynna í fjáraukalagafrumvarpi fyrir árið 2013. Stafar það helst af því að tekjuáætlun fyrri ríkisstjórnar var byggð á lofti og var innistæðulaus með öllu,“ sagði Vigdís.

Guðbjartur Hannesson, þingmaður Samfylkingarinnar, gerði athugasemdir við orðaval Vigdísar.

„Manni bregður við þegar lagt er út í faglega og málefnalega umræðu, sem á eftir að standa í einhverja daga, með orðunum að hér hafi verið hömlulaus útgjöld á síðustu fjórum árum - hömlulaus útgjöld - þar sem við erum búin að skera niður frá því að vera með 14% halla á landsframleiðslu niður í 1%. Við erum að tala um að menn hafi tekið við villandi búi, hvað sem það þýðir. Að tekjuáætlun á þessu ári hafi verið byggð á lofti, innhaldslaus með öllu, eins og hér er sagt. Ég verð að biðjast undan svona málflutningi í sambandi við fjárlög,“ sagði Guðbjartur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert