Íslenskar kindur í bandarísku jólaleikriti

Íslensku kindurnar í Bossier verða brátt stjörnur í jólaleikriti.
Íslensku kindurnar í Bossier verða brátt stjörnur í jólaleikriti.

Fjórar íslenskar kindur fara með hlutverk í jólaleikriti sem sýnt verður við kirkju í bænum Bossier í Louisiana í Bandaríkjunum nú í desember. Fleiri fjórfætlingar taka þátt í sýningunni, m.a. asnarnir Esther og Serena og hesturinn Gracela. Dýrin eru öll í eigu Michaels og Melissu Erlund sem eiga samkvæmt frétt Shreveport Times litla hjörð íslenskra kinda.

Þetta er þriðja árið í röð sem leikurinn Central Assembly of God setur upp jólaleikrit. Kirkjan stendur á hæð og við hana fer sýningin fram svo áhorfendur geta setið í bílum sínum og fylgst með.

Margir taka þátt í sýningunni en í bænum Bossier búa aðeins um 65 þúsund manns. Heilt þorp er skapað í tilefni sýningarinnar, sjálft Betlehem.

Í ítarlegri frétt Shreveport Times um málið segir að dýrin séu óvissuþátturinn í sýningunni. Tekið er fram að kindurnar eigi það til að reyna að strjúka.

Í myndbandi sem fylgir fréttinni segir bóndinn að íslenskar kindur hafi komið til Íslands með víkingunum og séu því ein elsta fjártegund í heimi. Hún segir að fjórar þeirra fái hlutverk í leikritinu, þær sem haga sér best.

Hér má sjá myndskeiðið - kunnuglegar kindur í fjarlægu landi!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert