Verið að lækka skatta um 100 milljarða

Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi fjármálaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi fjármálaráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi fjármálaráðherra, gagnrýndi ríkisstjórnina harðlega í kvöld fyrir að lækka skatta. Hann sagði að þegar skattalækkunaraðgerðirnar væru að fullu komnar til framkvæmda lækkuðu tekjur ríkissjóðs um 25 milljarða á ári eða um 100 milljarða á fjórum árum.

„Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að með þessum pólitísku aðgerðum er verið að veikja verulega tekjugrunn ríkisins inn í framtíðina því skattar sem eru lækkaðir í ár og á næsta ári, og ef til stendur að hafa þá þannig áfram, eru ávísun á tiltekið tekjutap ár eftir ár. Þegar við reiknum þetta upp í stærðir ríkisfjármálaáætlunarinnar til meðallangs tíma þá verða upphæðirnar fljótt stórar. Það er ljóst að frá og með árinu 2015, þegar auðlegðarskatti fellur niður, fer hann úr 9-10 milljörðum niður í núll. Þá er tap af lægri veiðigjöldum orðið 6-7 milljarðar. Tap af lægri virðisaukaskatti í ferðaþjónustu verður komið í á þriðja milljarð og þegar búið er að lækka tekjuskatt einstaklinga um 5 milljarða þá er tekjutapið komið vel á þriðja tug milljarða, 22-24 milljarðar hið minnsta. Ef við segjum að þetta séu 25 milljarðar og margföldum það með fjórum, sem er líftími ríkisfjármálaáætlunar til meðallangs tíma, þá eru það 100 milljarðar.“

Steingrímur sagði að ef við kæmust að þeirri niðurstöðu að það væri ekki brýnt að setja þessa 100 milljarða í velferðarþjónustu eða uppbyggingu á innviðum væri hægt að nota þá til að lækka skuldir ríkissjóðs.

Steingrímur gagnrýndi sérstaklega hvernig staðið væri að lækkun á tekjuskatti. Ef sagði að ef það ætti að fara í að lækka tekjuskattinn væri fráleitt annað en að lækka tekjuskattshlutfallið í lægsta þrepinu sem kæmi þeim lægst launuðu til góða. Ríkisstjórnin talaði mikið um millistéttina, en hann sagðist að ríkisstjórnin væri að lækka tekjuskatt á hana með því að skilja eftir þá sem lægstar tekjur hafa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert