„Dómurinn er fáránlegur“

Myndlistamennirnir Kristinn E. Hrafnsson og Ásmundur Ásmundsson.
Myndlistamennirnir Kristinn E. Hrafnsson og Ásmundur Ásmundsson.

„Dómurinn er fáránlegur, gjörsamlega fáránlegur,“ segir myndlistarmaðurinn Ásmundur Ásmundsson en Héraðsdómur Reykjavíkur féllst ekki á kröfur hans í meiðyrðamáli sem hann höfðaði á hendur myndlistarmanninum Kristni E. Hrafnssyni. Ásmundur bætir við að nú sé hálfleikur og að dómnum verði áfrýjað.

Meiðyrðamálið var höfðað í kjölfar ritdeilu Kristins og Ásmundar á síðum Morgunblaðsins, sem spratt af ráðningu nýs rektors Listaháskóla Íslands. Í grein sem birtist í Morgunblaðinu 8. maí síðastliðinn hafði Kristinn eftirfarandi orð um Ásmund: „Ofan á þetta er hann kunnastur fyrir að eyðileggja listaverk annarra listamanna [...].“

Ásmundur krafðist þess að ummælin yrðu dæmd dauð og ómerk og að Kristinn yrði dæmdur til að greiða sér 1,5 milljón króna í miskabætur og 150 þúsund krónur til að standa straum af kostnaði við birtingu dómsins í dagblaði. Þá krafðist hann málskostnaðar.

Í niðurstöðu dómsins segir meðal annars að sú staðreynd að ummælin voru látin falla í ritdeilu skipti máli. „Það skiptir máli varðandi niðurstöðu þessa máls þar sem almennt verður að játa mönnum rýmra frelsi til tjáningar í slíkum samskiptum heldur en þegar ummæli falla án forsögu eða tilefnis af hálfu þess sem þau beinast að.“

Þá segir að listamenn, sem kjósi að sýna verk sín opinberlega og taka þátt í opinberri umræðu á sínu fagsviði, verði að hlíta því að um þá sé fjallað með opinskárri og gagnrýnni hætti en annars væri. Opinber umræða um listsköpun og listamenn sé hluti af mikilvægri þjóðfélagsumræðu sem eigi erindi við almenning. „Af þeim sökum er mönnum játað rýmra tjáningarfrelsi á þessu sviði.“

Málið misskilið og til skammar

„Þetta er ekki hluti af ritdeilu,“ segir Ásmundur. „Það er varla minnst á deilumálið í greininni sem var ráðning rektors Listaháskóla Íslands. Ég er þarna kynntur til leiks sem glæpamaður. Það er ekki verið að fjalla um listina, það er verið að fjalla um mig. Það má alveg yfirfæra þetta á aðrar starfsgreinar, s.s. lækna. Þá yrði setningin: „Ofan á þetta er hann kunnastur fyrir að það að sjúklingar deyi á skurðborðinu.“ Það snýst ekki um læknisfræði.“

Ásmundur segir málið snúast um tjáningarfrelsið og hann hafi nýtt sér það til að búa til listaverk. „Sá réttur hlýtur að vega þyngra en einhver róggrein sem fjallar ekkert um listir eða var hluti af ritdeilunni. Málið er algjörlega misskilið og til skammar.“

Frétt mbl.is: „Í lagi að gagnrýna listamenn“

Frétt mbl.is: Stefnt í kjölfar ritdeilna

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert