„Myndi þekkja sjálfan mig“

Stefán Blackburn.
Stefán Blackburn.

Aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins gegn Stefáni Loga Sívarssyni, Stefáni Blackburn og þremur öðrum hélt áfram fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Tvö vitni gáfu skýrslu og snerist þinghaldið að mestu um líkamsárás sem aðeins Stefán Blackburn er ákærður fyrir.

Stefáni Blackburn er gefið að sök að hafa ráðist með ofbeldi á karlmann fyrir utan skemmtistaðinn Faktorý í miðborg í Reykjavíkur í sumar. Myndbandsupptaka úr öryggismyndavél var spiluð í morgun og sést þar þrekvaxinn maður fara mikinn fyrir utan skemmtistaðinn. Hljóp hann svo að karlmanni sem stóð þar, veitti honum hnefahögg í líkama og skallaði hann í andlitið.

Maðurinn, brotaþoli, kom fyrir dóminn í morgun og staðfesti að hann þekkti sig á upptökunni. Hann sagðist ekki hafa þekkt árásarmanninn en á vettvangi hafi honum verið sagt að þar hafi verið að verki Stefán Blackburn. Maðurinn nefbrotnaði og hlaut glóðarauga þegar hann var skallaður í andlitið.

Dómari spurði því næst hvort hann sæi árásarmanninn í salnum og benti maðurinn á Stefán Blackburn.

Þá var hann spurður að því hvort honum hefði verið hótað vegna málsins. Maðurinn dró nú úr því en sagðist engu að síður hafa fengið símtal í sumar. „Það var einhver sem hringdi og spurði hvort ég væri búinn að kæra. [...] Hann sagði að það væri best fyrir mig að vera ekkert að kæra.“

Stefán Blackburn neitar sök

„Stefán, ert þetta þú þarna á hvíta bolnum?“ spurði dómsformaður Stefán Blackburn eftir að upptakan var spiluð. „Nei, ég myndi þekkja sjálfan mig,“ svaraði Stefán sem þvertekur fyrir að hafa ráðist á manninn í umrætt sinn.

Það ætti þó ekki að vera erfitt að sannreyna enda maðurinn á upptökunni með áberandi húðflúr á hendi sem vel var sjáanlegt á upptökunni. Stefáni var þó ekki gert að bretta upp ermar í dómsal í morgun.

Verjandi Stefáns gerði einnig lítið úr sakbendingunni og spurði brotaþola hvort hann hefði fylgst með framvindu málsins í fjölmiðlum undanfarið. Játti maðurinn því og sagðist í raun ekki hafa komist hjá því, svo mikil væri umfjöllunin. Spurði verjandi Stefán því næst hvort hann hafi séð myndir af Stefáni í fjölmiðlum og játti maðurinn því einnig.

Heldur áfram í janúar

Þó kom fyrir dóminn læknir sem skoðaði annað fórnarlambið sem kemur fyrir í alvarlegasta ákæruliðnum og kenndur er við Stokkseyri. Staðfesti læknirinn vottorð sitt og að áverkar á hendi gætu samrýmst því að hann hefði verið skorinn með eggvopni. Um hafi verið að ræða langan og djúpan skurð sem sést hafi verið sjö dögum eftir árásina. 

Ástæða þess að vitnin tvö voru leidd fyrir dóminn í dag er að annað þeirra býr erlendis en dvelur á Íslandi yfir jólin og hitt er mikið erlendis vegna starfa sinna. Aðalmeðferðin heldur svo áfram 13. janúar næstkomandi og verður þá tekin skýrsla af fleiri vitnum. Að því loknu fer fram munnlegur málflutningur og verður málið í kjölfarið dómtekið, rúmum mánuði eftir að aðalmeðferð hófst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert