„Kjarasamningar eyða óvissu“

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég vil lýsa mikilli ánægju með að hér virðast vera í fæðingu nýir kjarasamningar sem munu tryggja aukinn stöðugleika og eyða óvissu,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á Alþingi í dag.

„Óvissan ein og sér getur dregið úr fjárfestingu og athafnagleði í landinu. Þannig munu nýir kjarasamningar, sem vonandi verða staðfestir innan fárra vikna, verða hornsteinninn í mikilvægu nýju framfaraskrefi sem mun einkennast af vexti og stöðugleika. Ríkisstjórnin hefur lagt sitt af mörkum með hallalausum fjárlögum og langtímaáætlun um að halda aftur af verðbólgunni. Við höfum tækifæri núna, þar sem krónan hefur verið stöðug,“ sagði Bjarni.

„Lægst launaði hópurinn fengi ekki neitt“

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, gagnrýndi skattabreytingar ríkisstjórnarinnar og sagði að með þeim væri forgagnsraðað í þágu þeirrar sem hærri launin hafa. Þau 10% sem lægstu launin hafa fengju ekki neitt.

Bjarni sagði að fyrri ríkisstjórn hefði hækkað skatta á launafólk. Með skattalækkununum sem ríkisstjórnin hefði boðað væri um þriðjungur af þessari skattalækkun dreginn til baka. Þetta þýddi að þeir sem meðaltekjur hefðu fengju um 20 þúsund króna skattalækkun á næsta ári.

Bjarni sagði rétt að þegar fyrri ríkisstjórn hækkaði skatta á launafólk hefði hún reynt að hlífa þeim sem lægstar tekjur höfðu. Það væri ástæðan fyrir því að við skattalækkun núna fengi þessi hópur ekki sömu lækkun og aðrir.

Helgi sagði ánægjulegt að heyra frá fjármálaráðherra að hann staðfesti að síðasta ríkisstjórn hefði hlíft þeim sem lægstar tekjur hafa. Núverandi ríkisstjórn hefði hins vegar ákveðið að þessi hópur fengi ekki neitt þegar skattkerfinu væri breytt.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, gagnrýndi ríkisstjórnina fyrir að hækka gjaldskrá sína á sama tíma og flest sveitarfélög landsins héldu sínum gjaldskrám óbreyttum. Hann sagði að það væri ekki ástæða til að þakka þessari ríkisstjórn að hafa stuðlað að gerð kjarasamninga. Kjarasamningar væru að takast þrátt fyrir aðgerðir ríkisstjórnarinnar.

Árni Páll sagði í lok ræðu sinnar að Samfylkingin myndi stuðla að samþykkt frumvarps ríkisstjórnarinnar um lækkun skatta.

Stendur til að taka upp tveggja þrepa skattkerfi?

Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi fjármálaráðherra, gagnrýndi einnig hvernig staðið var að skattabreytingunum. Hann sagði einkennilegt hvað fjármálaráðherra væri ósveigjanlegur gagnvart réttmætum kröfum verkalýðshreyfingarinnar. Hann sagði að sig grunaði að fleira lægi að baki. Sig grunaði að fjármálaráðherra væri að vonast eftir að hann gæti á kjörtímabilinu flatt skattkerfið út og tekið á ný upp tveggja þrepa tekjuskattskerfi.

Bjarni sagði mikilvægt að hafa í huga að ríkið tæki engan skatt til sín fyrr en laun næðu 240 þúsund krónum á mánuði, því ríkið fengi ekki tekjuskatt fyrr en búið væri að greiða útsvarið til sveitarfélaganna.

Bjarni benti líka á að ekki mætti gleyma jaðaráhrifum skattkerfisins. Vegna greiðslu barnabóta og vaxtabóta væru jaðarskattáhrif hjóna sem væru með 500 þúsund krónur til eina milljón í mánaðarlaun um 50%.

Helgi Hjörvar alþingismaður í ræðustól.
Helgi Hjörvar alþingismaður í ræðustól. mbl.is/Kristinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert