Fólk borgar til að losna við jólatré

„Það er þrisvar sinnum meiri eftirspurn í ár en í fyrra,“ segir Guðný Þorsteinsdóttir, sölu- og markaðsráðgjafi hjá Gámaþjónustunni hf., en fyrirtækið býður borgarbúum upp á að láta sækja til sín jólatréð gegn eitt þúsund króna gjaldi.

Áskrifendur Garðatunnunnar hjá Gámaþjónustunni fá þjónustuna hins vegar án endurgjalds.

Líkt og greint hefur verið frá mun Reykjavíkurborg ekki hirða jólatré borgarbúa, frekar en síðustu ár. Þurfa Reykvíkingar því sjálfir að koma þeim á endurvinnslustöðvar Sorpu. Önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu sækja hins vegar jólatré við lóðamörk íbúa.

Guðný segir um eitt hundrað manns hafa haft samband við Gámaþjónustuna að undanförnu og beðið starfsmenn fyrirtækisins um að sækja til sín jólatré. „Þetta hefur aukist alveg gríðarlega hjá okkur. Í fyrra auglýstum við þetta svo sem ekki mikið en í ár settum við inn auglýsingu á heimsíðu okkur og fengum svona góð viðbrögð.“

Spurð hvort starfsmenn Gámaþjónustunnar finni fyrir miklum áhuga fyrir þessari þjónustu meðal Reykvíkinga kveður Guðný já við: „Við byrjuðum bara að vekja athygli á þessu í byrjun þessarar viku. Hefðum við gert það fyrr þá hefðu vafalaust fleiri tekið við sér,“ segir hún og bendir á að öll tré sem Gámaþjónustan hirðir frá fólki eru kurluð niður og sett í moltu.

Þá hafa sum íþróttafélög í Reykjavík einnig safnað jólatrjám gegn gjaldi.

Jón Hólmgeir Steingrímsson er í barna- og unglingaráði Víkings. Hann segir félagið rukka 1.500 krónur fyrir hvert sótt jólatré en ágóðinn rennur í barna- og unglingastarf.

„Við sækjum eingöngu tré í hverfi 108. Þetta er í þriðja eða fjórða sinn sem við bjóðum upp á þessa þjónustu,“ segir Jón Hólmgeir og bendir á að í ár hafi Víkingur hirt á þriðja hundrað tré.

Sambærileg þjónusta aldrei komið til tals innan borgarinnar

Guðjóna Björk Sigurðardóttir er skrifstofustjóri á skrifstofu reksturs og umhirðu borgarlands. Hún segir niðurskurð og fjárskort vera helstu ástæðu þess að starfsmenn Reykjavíkurborgar sæki ekki jólatré borgarbúa líkt og eitt sinn tíðkaðist.

Spurð hvort aldrei hafi komið til tals innan Reykjavíkurborgar að sækja tré borgarbúa gegn gjaldi svarar Guðjóna Björk: „Þetta hefur ekki komið til tals en það má vissulega skoða þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert