„Hann var kex, kex, kexruglaður“

Frá þingfestingu málsins.
Frá þingfestingu málsins.

„Hann var alveg út úr kú. Hann var kex, kex, kexruglaður, svo dópaður var hann,“ sagði Sívar Sturla Bragason, faðir Stefáns Loga Sívarssonar, um karlmann sem fluttur var nauðugur á heimili Sívars, barinn og síðar bundinn fastur við burðarbita í kjallara íbúðar á Stokkseyri. Skýrslutökum í Stokkseyrarmálinu er lokið.

Fyrir utan Sívar kom einnig fyrir dóminn húsráðandinn á Stokkseyri. Þangað var annað af tveimur fórnarlömbum í málinu flutt eftir að hafa verið haldið gegn vilja sínum og beittur ítrekuðu og grófu ofbeldi tímunum saman. Ítarlega var greint frá því á mbl.is þegar fórnarlömbin tvö gáfu skýrslu.

Þannig vitnað sé í framburð annars fórnarlambsins þá var haldið úr Breiðholti í Hafnarfjörð, í íbúð sem Stefán Logi hafði aðgang að. En þar bjó Sívar Sturla á þessum tíma, þ.e. 30. júní í fyrra. Maðurinn var bundinn á höndum og fótum og látinn liggja á gólfinu. „Það var ekkert mjög mikið ofbeldi á þeim tímapunkti. Síðan kom Stefán Logi og ofbeldið hófst fyrir alvöru,“ sagði hann.

Sívar var spurður að því hvort Stefán Logi hefði komið á heimilið umrætt kvöld. „Nei, vá!“ Síðar sagði hann þó að Stefán Logi hefði komið við ásamt tveimur stúlkum en aðeins stoppað í stuttan tíma. En Sívar staðfesti þó að Stefán Blackburn og Davíð hefðu komið með fórnarlambið í íbúðina. „Þeir voru búnir að sprengja vörina á hinum stráknum og ég dríf hann í sturtu. Það var agalegt að sjá greyið.“

Hann sagði hins vegar að engar barsmíðar hefðu farið fram í íbúðinni. Fórnarlambið hefði verið svona illa farið þegar komið var með það.  Hann sagðist ekki geta svarað því 100% heiðarlega hvort maðurinn hefði verið í haldi þeirra Stefáns Blackburn og Davíðs. Hann sagðist þó viss um að fórnarlambið hefði verið undir miklum áhrifum fíkniefna og sagði að maðurinn hefði sjálfur tekið þau inn. „Það var enginn edrú þarna inni. Allir útúrdópaðir og á sterakjaftæði. Það var enginn með sjálfum sér.“

Fórnarlambið lýsti hins vegar miklu ofbeldi í íbúðinni og sagðist hafa verið þvingaður til að gleypa vímuefni: „Stefán Logi ákveður svo að ég eigi að gleypa pillur sem hann er með. Hann var með lúku fulla af mislitum pillum sem hann treður upp í mig. Mér er rétt vatnsglas til að kyngja þessu og höggin halda áfram.“

Missti rökhugsun

Óumdeilt er í málinu að frá Hafnarfirði lá leiðin á Stokkseyri. Lýsing fórnarlambsins á því hvað gerðist þar er á þessa leið: „Þeir klæða mig úr fötunum og Stefán Blackburn er að berja mig með belti og rafmagnssnúrum. Á meðan ég er klæddur í svartan ruslapoka ýja þeir að því að ég muni ekki eiga afturkvæmt.“

Eftir það var maðurinn bundinn við burðarbita í kjallara íbúðarinnar og skilin eftir þar, í myrkrinu, klæddur eingöngu í svartan plastpoka.

Húsráðandinn á Stokkseyri kom eins og áður segir fyrir dóminn í morgun. „Davíð Freyr hringir í mig á sunnudegi, spyr hvort hann megi koma í heimsókn. Ég játti því og svo koma þeir þrír. Ég þekkti bara Davíð,“ sagði maðurinn þegar hann var beðinn um að lýsa umræddum degi.

Hann sagði þá hafa farið inn í svefnherbergi en sjálfur vildi hann ekkert vita af þessu. „Ég settist bara inn í eldhús og beið. Svo fer það þannig að það er brambrölt inni í stofu. Svo koma þeir fram, Davíð og þessi strákur, og þeir ætla að skreppa eitthvað. Ég vissi að strákurinn var niðri í kjallara og vissi ekkert hvað ég átti að gera og missti rökhugsun. Ég fór út og gekk um Stokkseyri í 20 mínútur og reyndi að hringja í Davíð. Ég náði ekki í hann en han hringdi til baka þegar ég kom heim. Ég sagðist ætla að senda þennan mann út og hann sagði mér að gera það bara.“

Hann sagðist hafa farið niður í kjallara, leyst manninn og gengið með honum út á bensínstöð þar sem hann skildi við hann.

Spurður út í það hvernig útgangurinn á honum var sagði maðurinn: „Það var eins og hann hefði lent í mörgum slagsmálum.“

Hann hafnaði því alfarið að hafa séð ofbeldi í íbúð sinni. 

Látinn maður „gaf skýrslu“

Einnig var spiluð upptaka úr skýrslutöku lögreglu yfir karlmanni sem var staddur í samkvæminu í Breiðholti, þar sem hinn maðurinn var fyrst beittur ofbeldi. Sá var, samkvæmt ákæru, sviptur frelsi sínu allt þar til í hádeginu daginn eftir. Hann var jafnframt beittur ofbeldi og kinnbeinsbrotnaði, augntóft brotnaði og hann er með stórt ör á hendinni. „Og svo fæ ég martraðir og er bara hræddur.“

Ástæða þess að spiluð var upptaka en maðurinn ekki fenginn fyrir dóminn er sú að hann lést úr of stórum skammti vímuefna á síðasta ári. Á upptökunni lýst maðurinn því að fórnarlambið hefði verið stungið með skrúfujárni í öxlina, skorinn með dúkahníf og bundinn með hendur fyrir aftan bak.

Eins og áður segir lauk skýrslutökum í málinu í dag. Því var frestað til þriðjudagsins 21. janúar þegar munnlegur málflutningur fer fram. Málflutningi á að ljúka þann dag og verður málið þá loksins dómtekið, en aðalmeðferð hófst 9. desember sl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert