Sannleikskorn og sandkorn DV

Jón Steinar Gunnlaugsson.
Jón Steinar Gunnlaugsson. Morgunblaðið/Kristinn

Aðalmeðferð í máli Jóns Steinars Gunnlaugssonar, fyrrverandi hæstaréttardómara, gegn Þorvaldi Gylfasyni, hagfræðiprófessor, fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Málið var höfðað vegna skrifa Þorvaldar um orðróm þess efnis að Jón Steinar hafi lagt drög að kæru til Hæstaréttar sem síðar hafi verið notuð sem átylla til að ógilda stjórnlagaþingskosningarnar.

Jón Steinar fer fram á að ummælin verði dæmd dauð og ómerk, Þorvaldi verði gerð refsing, hann dæmdur til að greiða sér 2,5 milljónir króna í miskabætur og hálfa milljón til að kosta birtingu niðurstöðu dómsins í tveimur dagblöðum. Þá krefst hann að sér verði dæmdur málskostnaður að skaðlausu.

Greinina sem bar heitið From Collapse to Constitution: The Case of Iceland ritaði Þorvaldur í ritröð háskólans í München í Þýskalandi og var hún birt í mars 2012. Ummælin sem stefnt var vegna er umfjöllun Þorvaldar um orðróm þess efnis að „einn af dómurum Hæstaréttar, staðfastur flokksmaður áður en hann var skipaður dómari og þá tekinn fram fyrir þrjá hæfari umsækjendur samkvæmt áliti nefndar sem mat umsækjendur, hafi lagt drög að einni af kærunum sem Hæstiréttur, undir forystu sama dómara, nýtti sem átyllu til að ógilda kosningarnar. Ekki hafa þó verið færðar sönnur á þetta.“

Tilvitnaður texti eru þau ummæli sem Jón Steinar krefst þess að verði dæmd dauð og ómerk. „Í greininni kemur fram gríðarlega harðskeytt gagnrýni á ákvörðun Hæstaréttar og svo er þessu slaufað við,“ sagði Reimar Snæfells Pétursson, lögmaður Jóns Steinars. „Þar er að finna ásökun um að hann hafi með leynd samið kæruskjalið og stjórnað afgreiðslu þess. Þessi staðhæfing er sett fram í formi frásagnar um orðróm en það er ljóst þegar þetta er metið í heildarsamhengi að framsetningin á að vekja hjá lesandanum trú um að það kunni að vera eitthvað hæft í honum.“

Ósmekkleg aðför að Jóni Steinari

Reimar vísaði til þess að í greinargerð segist Þorvaldur aðeins hafa endurtekið það sem kom fram í svokölluðu sandkorni í dagblaðinu DV hinn 10. nóvember 2011. Í því segir: „Sá kvittur hefur vaknað meðal þeirra sem þekkja til kæra vegna kosninga til stjórnlagaþings í fyrra að Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari kunni að hafa komið að kærunum, sem voru sendar til Hæstaréttar. Nú telja einhverjir sig bera kennsl á stílbrögð Jóns Steinars á einhverri kærunni og draga þá ályktun að dómarinn hafi verið með í ráðum.“

Reimar sagði að miðað við hvað fram komi í sandkorninu sé ljóst að Þorvaldur hafi magnað upp orðróminn. „Það þarf ekki að fjölyrða mikið um trúverðugleika þessa sandkorns. Það er ekkert sem bendir til þess að það felist sannleikskorn í þessu sandkorni, og þau atriði sem stefndi [Þorvaldur] nefnir til að skjóta fótum undir trúverðugleika sandkornsins eru langt að sótt. Það sem hann er í raun og veru að gera er að standa fyrir ósmekklegri aðför gegn persónu stefnanda [Jóns Steinars], segja að hann sé ærulaus og trúandi til alls. Staðreyndin er sú að ekkert bendir til þess að það sé nokkurt sannleikskorn í sandkorninu.“

Hann ítrekaði að Jóni Steinari sé borin á brýn refsiverð háttsemi. Hann sé ásakaður að hafa sem dómari samið með leynd kæruskjal til réttarins og stjórnað afgreiðslu málsins. „Dómari sem yrði vís að þessu hefði brotið gegn 130. grein almennra hegningarlaga og þannig gerst sekur um ranglæti við úrlausn máls eða meðferð þess og sú hegðun sætir fangelsi allt að sex árum. Auk þess þarf ekki að fjölyrða um almennt hæfi slíks dómara til að gegna embætti. Því er um mjög alvarlega aðdróttun að ræða.“

Hvað varðar þann fyrirvara sem Þorvaldur gerði í ummælunum, s.s. að aðkoma Jóns Steinars hefði ekki verið sönnuð, sagði Reimar: „Það er ekki þannig að menn geti viðhaft og borið út aðdróttanir með því einu að nota brellur. Það verður að meta málið heildstætt. Almennir fyrirvarar leysa menn ekki undan ábyrgð á orðum sínum. Ef fallist yrði á þá málsástæðu jafngildir það afnámi æruverndar.“ Sagði hann menn þá geta borið út ærumeiðingar með því að hnýta við almennum fyrirvara.

Þá sagði Reimar ljóst að ummælin áttu ekki brýnt erindi við almenning. Þau voru tilhæfulaus og tilhæfulaus ummæli varða almenning engu. Þetta sjáist raunar best á því að Þorvaldur hafi tekið ummælin út úr grein sinni og er hún aðeins aðgengileg án þeirra í dag. Engar ástæður geti réttlætt ummælin en knýjandi ástæður séu fyrir því að Þorvaldur sæti ábyrgð vegna þeirra. „Hann [Jón Steinar] er tilbúinn að þola margvíslega gagnrýni, og þar með óréttmæta gagnrýni. En því má ekki rugla saman við tilhæfulausar ásakanir um refsiverða háttsemi, ásakanir sem jafnvel grafa undan réttarkerfinu.“

Reyndi ekki að koma höggi á Jón Steinar

Sigríður Rut Júlíusdóttir, lögmaður Þorvaldar, sagði málið enn eina viðbótina í flóru sambærilegra mála á undanförnum misserum og að svo virðist sem menn þurfi að sækja orðstír í dómhúsið við Lækjargötu. „Orðstír byggir hins vegar helst á gjörðum og orðum. [...] Þöggun er sérstaklega hættuleg og alvarleg.“

Hún lagði áherslu á að hér á landi hafi átt sér stað langt samtal um það sem úrskeiðis hefur farið hjá íslenskum stjórnvöldum, einnig hvað varðar skipun dómara í Hæstarétt. Gagnrýnin hafi snúið að flokkshollustu og frændhygli. Þannig hafi til dæmis staðið mikill styrr um skipun Jóns Steinars í embætti hæstaréttardómara. „Kosningin [til stjórnlagaþings] var kærð og síðan ógilt af Hæstarétti og það má segja það, að við ákvörðun réttarins hafi hin gagnrýna umræða um flokkshollustu og frændhygli magnast til muna. Ákvörðunin var meira að segja kölluð rammpólitísk í umræðunni.“

Þetta hafi orðið til þess að umræðan varð afar harðskeytt, ritaðar hafi verið greinar og pistlar á netið þar sem meðal annars kom fram að dómarar Hæstaréttar séu spilltir og vilhallir Sjálfstæðisflokknum. „Þetta er umræðusviðið sem grein stefnda [Þorvaldar] var ætlað að vera hluti af,“ sagði Sigríður og skýrði út að hún snúist um það sem fór úrskeiðis, hvort skipun dómara hafi verið þáttur í því og hvernig hægt sé að breyta þjóðfélaginu til batnaðar. „Tilgangur greinar stefnda var ekki að móðga persónu stefnanda. Hún hafði annan tilgang, að vekja lesendur til umhugsunar um dvínandi traust á dómstólum, um ákvörðunina og um skipan hæstaréttardómara.“

Þá tók hún fram að Jón Steinar sé ekki nafngreindur og fyrirvari settur á sannleiksgildi orðrómsins. „Hann gætir þess að ekki sé lengra gengið en nauðsynlegt er, setur fyrirvara og ummælin snerta því ekki æru stefnanda. Tilgangurinn er að draga athyglina að öðru en persónu hans, ekki að koma höggi á hann.“

Endurtekning á því sem birtist í DV

Sigríður sagði ljóst að Þorvaldi sé heimilt að sjokkera, trufla og móðga Jón Steinar með þessari framsetningu. „Slíkur orðrómur, efni hans og tilvist er sjokkerandi og truflandi og það er ekki bannað að segja frá honum. [...] Það hlýtur að þykja saga til næsta bæjar að þessi orðrómur sé yfirleitt til staðar. [...] Fréttamat fjölmiðla er sönnun þess að efni ummælanna á erindi til almennings.“

Þar á hún við áðurnefnt sandkorn í DV. Hún sagði ekki mögulegt annað en að Þorvaldur hafi verið í góðri trú þegar hann endursagði það sem áður var búið að koma fram í fjölmiðli og án þess að fram kæmu mótmæli frá Jóni Steinari. „Á nú að fara banna það að endurtaka það sem birst hefur í fjölmiðlum og hefur ekki verið mótmælt? [...] Þetta er ekki spurning um að dreifa ærumeiðingum heldur endurtaka þar sem kemur fram í fjölmiðlum. [...] Ef það væri komið í veg fyrir slíka tjáningu er komið í veg fyrir að almenningur geti tjáð skoðanir sínar á fréttum sem birtast í fjölmiðlum. Þess vegna má dreifa upplýsingum úr fjölmiðlum, jafnvel þó svo sá sem dreifir þeim telur þær rangar. Það er ómögulegt að banna stefnda þessa tjáningu.“

Eftir ræður lögmanna var málið dómtekið og verður dómur kveðinn upp á næstu vikum.

Þorvaldur Gylfason.
Þorvaldur Gylfason.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert