Tugir mótmæltu olíuvinnslu

Friðsöm mótmæli fóru fram við Þjóðmenningarhúsið í dag þar sem fram fór undirritun vegna þriðja sérleyfisins vegna olíuleitar á Drekasvæðinu. Mótmælin voru á vegum tólf aðila sem látið hafa sig umhverfisvernd varða og voru um 60-70 manns á staðnum.

Tveir lögreglumenn gættu þess að allt færi fram með friði og spekt en mótmælendur lásu upp tilkynningu og púuðu á þá sem mættu í Þjóðmenningarhúsið til þess að taka þátt í undirrituninni. Hrópuðu þeir ennfremur slagorð eins og: „Enga olíuvinnslu!“ Þá blésu þeir upp svartar blöðrur sem þeir sprengdu til þess að vekja á sér athygli.

Þeir sem stóðu fyrir mótmælunum eru Alda - félag um sjálfbærni og lýðræði, Breytendur (Changemaker Iceland), Grugg – vefrit um umhverfisvernd, Eldvötn, Fuglavernd, Framtíðarlandið, Landvernd, Loftslag.is, Náttúruverndarsamtök Íslands, Náttúruverndarsamtök Suðurlands, Nemendafélagið Gaia (HÍ) og Ungir umhverfissinnar.

Fram kemur meðal annars í yfirlýsingu frá mótmælendum að þeir telji að olíuleit á norðurslóð um stangist á við skuldbindingar Íslands í loftlagsmálum og ógni ennfremur lífríki á svæðinu. Olíuvinnsla geti valdið alvarlegum umhverfisslysum auk þess sem mótsögn felist í því hjá íslenskum stjórnvöldum að hreykja sér af umhverfisvænni orku en hvetja á sama tíma stórfyrirtæki til þess að leita að olíu við strendur landsins.

Er þess krafist að íslensk stjórnvöld hætti tafarlaust við allar áætlanir um olíuvinnslu innan efnahagslögsögu Íslands og sendi þar með skýr skilaboð um að þau ætli sér að vera í fararbroddi í loftlagsmálum í heiminum.

Frá mótmælunum við Þjóðmenningarhúsið í dag.
Frá mótmælunum við Þjóðmenningarhúsið í dag. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert