„Eins og landið skiptist í tvennt“

Erfitt getur verið að finna jafnvægið milli Evrópu og Rússlands, eins og Úkraína glímir við þessa dagana. Íbúar í austurhluta landsins vilja meiri tengsl við Rússland en þeir í vesturhlutanum eru áfjáðir í að ganga í Evrópusambandið. Þetta segir Anna Barabash, úkraínsk kona sem búsett er hér á landi.

Undanfarna tvo mánuði hefur ástandið í Úkraínu stigmagnast. Upphafið má rekja til þeirrar ákvörðunar stjórnvalda sem tekin var um miðjan desember að hætta við undirritun samstarfssamings við Evrópusambandið og styrkja í staðinn tengslin við Rússland. Í lok síðustu viku voru lög samþykkt á þingi landsins sem hefta verulega frelsi fólks til mótmæla, en þau kveða m.a. á um að það geti varðað fangelsisvist í allt að fimm ár að hindra aðgang eða safnast saman til mótmæla við opinberar byggingar. Þá er refsivert að bera hjálm eða grímu við mótmæli og saksókn í málum sem varða mótmæli hefur verið einfölduð.

Atvinnuleysi í vestri, betra ástand í austri

Að sögn Önnu er talsvert atvinnuleysi í vesturhluta Úkraínu. „Íbúar þar höfðu miklar væntingar varðandi inngöngu Úkraínu í Evrópusambandið. Undanfarin tvö ár hefur mikið verið auglýst að lífið verði betra ef við förum í ESB. En á síðustu stundu hætti Janúkóvitsj [forseti Úkraínu] við. Hann sagði að ef landið skrifaði undir samninginn við ESB þá þyrfti að fylgja reglum sambandsins í einu og öllu, landið vantaði fé og ódýrt gas og Rússar voru tilbúnir til að láta það í té.“

Anna segir að í austurhluta landsins sé atvinnuástand betra, þar séu meiri tengsl við Rússland og þar sé ekki jafn mikill vilji meðal fólks að ganga í Evrópusambandið. „Það er eins og landið skiptist í tvennt,“ segir hún.

Konur og börn beðin að halda sig heima

Eftir að Janúkóvitsj ákvað að hætt yrði við undirritun samnigsins við ESB bauðst Úkraínu lægra verð á gasi frá Rússlandi. Forsetinn viðurkenndi að þrýstingur frá rússneskum stjórnvöldum hefði haft áhrif á ákvörðunina um að slíta viðræðunum. Um svipað leyti gerðu ríkin tvö samning um að Rússar keyptu 15 milljarða af úkraínskum ríkisskuldabréfum. Ráðamenn í Úkraínu sögðust með þessu hafa bjargað Úkraínu frá gjaldþroti. 

Hundruð þúsunda mótmælenda hafa komið saman undanfarna daga í Kænugarði, höfuðborg landsins. Þrír mótmælendur létu lífið í gær og þykir fullvíst að tveir þeirra hafi verið skotnir af lögreglu. Mörg hundruð hafa særst, þar af eru tugir alvarlega særðir.

Anna segir að mótmælendurnir séu ekki einungis íbúar í Kænugarði, þeir komi alls staðar að af landinu. Einnig hafi verið mótmælt í öðrum borgum og bæjum í landinu. „Ég veit að það er búið að loka nánast öllum skrifstofum í miðborginni, fólki er ekki óhætt að fara í vinnuna. Svo er búið að biðja konur og börn að fara ekki út á kvöldin.“

Fólk er að vekja athygli á vandamálunum

Hún segist ekki vera sammála þeim aðferðum sem notaðar hafa verið við mótmælin eða til að fást við þau. „En fólk er að vekja athygli á því að það séu vandamál í landinu. Þeir hafa gengið nokkuð langt og lögregla þarf að gera það sem hún getur til að stöðva það. Ég held að lögregla myndi bregðast svipað við í mörgum löndum.“

Vopnahlé í bili

Vitali Klitschko, helsti leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Úkraínu, tilkynnti í dag að hann myndi eiga viðræður við Janúkóvitsj forseta síðar í dag. Hann hvatti mótmælendur til að halda að sér höndum þar til að þeim fundi loknum, en í gær hótaði hann forsetanum að mótmælendur myndu gera árás í miðborg Kænugarðs, yrði ekki gengið að kröfum þeirra. Þær eru að haldnar verði forsetakosningar sem fyrst, að ríkisstjórnin segi af sér og að lögin um mótmælin verði ógilt.

Óeirðalögregla í miðborg Kænugarðs í morgun.
Óeirðalögregla í miðborg Kænugarðs í morgun. AFP
Anna Barabash hefur verið búsett á Íslandi undanfarin 12 ár.
Anna Barabash hefur verið búsett á Íslandi undanfarin 12 ár.
Svartan reyk leggur frá logandi bíldekkjum í miðborg Úkraínu.
Svartan reyk leggur frá logandi bíldekkjum í miðborg Úkraínu. AFP
Viktor Janúkóvitsj, forseti Úkraínu.
Viktor Janúkóvitsj, forseti Úkraínu. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert