Tveir starfshópar skipaðir af ráðherra

Sigurður Hannesson, formaður sérfræðingahóps um höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána
Sigurður Hannesson, formaður sérfræðingahóps um höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána mbl.is/Ómar Óskarsson

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur skipað tvo starfshópa vegna lækkunar á höfuðstól húsnæðislána, í samræmi við aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar frá 30. nóvember 2013, sem miðar að því að lækka húsnæðisskuldir heimila í landinu.

Öðrum hópnum er falið að annast undirbúning og gerð lagafrumvarpa í tengslum við beina niðurfærslu höfuðstóls húsnæðislána, en hinum að vinna heildstæðar tillögur vegna ráðstöfunar séreignarsparnaðar inn á höfuðstól húsnæðislána.

Starfshópur vegna beinnar niðurfærslu húsnæðislána

Starfshópi um gerð lagafrumvarpa er ætlað að greina á hvaða sviðum þörf er á sérstökum lagaheimildum og fyrirmælum í lögum vegna beinnar niðurfærslu húsnæðislána. Þá er starfshópnum ætlað að semja frumvörp um framkvæmdina sem lögð verða fram á yfirstandandi þingi. Frumvörpin skulu byggja á þeim tillögum sem kynntar voru í skýrslu sérfræðingahóps um höfuðstólslækkun húsnæðislána að teknu tilliti til niðurstaðna úr vinnu starfshópa á vegum verkefnisstjórnar, sem falið verður að taka til skoðunar ýmsa þætti um framkvæmd skuldaleiðréttingar, segir í tilkynningu á vef ráðuneytisins.


Gert er ráð fyrir að starfshópurinn starfi fram á mitt ár 2014 en í hópnum eru:Guðrún Þorleifsdóttir, lögfræðingur og formaður, Einar Hugi Bjarnason hæstaréttarlögmaður og Ingvar J. Rögnvaldsson vararíkisskattstjóri.


Starfshópur um ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á höfuðstól húsnæðislána o.fl.

Starfshópi vegna ráðstöfunar séreignarsparnaðar inn á höfuðstól húsnæðislána o.fl. er falið að gera heildstæða tillögu að eftirfarandi:


1. Kerfi sem heimilar einstaklingum að nýta allt að 6% hluta séreignarsparnaðargreiðslna samtals sem innborgun inn á höfuðstól húsnæðislána, skattfrjálst.

2. Húsnæðissparnaðarkerfi sem heimilar einstaklingum að leggja fyrir allt að 6% iðgjaldagreiðslna samtals í séreignarsparnað á húsnæðissparnaðarreikning til fyrstu húsnæðiskaupa, skattfrjálst.


Hópnum er falið að gera tillögur að öllum verklegum þáttum þessara kerfa, þ.e. draga upp heildarmynd af hvoru kerfi fyrir sig, kortleggja feril greiðslu og lista upp þá aðila sem að málunum koma. Einnig er starfshópnum falið að vinna drög að þeim lagafrumvörpum sem nauðsynleg eru vegna málsins.

Starfshópurinn skilar áfangaskýrslu og drögum að lagafrumvörpum fyrir miðjan mars.
Starfshópinn skipa: Maríanna Jónasdóttir, fjármála- og efnahagsráðuneyti, formaður, Guðrún Þorleifsdóttir, fjármála- og efnahagsráðuneyti, varaformaður, Anna Valbjörg Ólafsdóttir, fjármála- og efnahagsráðuneyti, Arnaldur Loftsson, tilnefndur af Landssamtökum lífeyrissjóða, Elín Alma Arthursdóttir, tilnefnd af ríkisskattstjóra, Soffía Eydís Björgvinsdóttir, tilnefnd af félags- og húsnæðismálaráðherra, Ólafur Páll Gunnarsson, tilnefndur af Samtökum fjármálafyrirtækja, segir ennfremur í tilkynningu

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert