Nota ljósastaura eins og Facebook

Á námskeiði Torfa er m.a. fjallað um tilfinningar og gáfnafar …
Á námskeiði Torfa er m.a. fjallað um tilfinningar og gáfnafar hunda. Rósa Braga

Hundar nota ljósastaura eins og mennirnir nota samskiptasíður eins og facebook og til eru dæmi um að hundar líti á sig sem höfuð fjölskyldunnar og hagi sér samkvæmt því. Skynjun þeirra er gjörólík okkar og lítið gagn er að því að skamma hund sem hefur brotið gegn heimilisreglum, nema hann sé staðinn að verki. Þetta segir dr. Torfi Jóhannesson, sem er sérfræðingur í atferli og velferð dýra.

Torfi heldur námskeið á vegum Námsflokka Hafnarfjarðar þar sem m.a. er fjallað um tilfinningar og gáfnafar hunda. Hvað sé líkt og ólíkt með skynjun þeirra og manna og fjallað er um ýmsar kenningar um uppeldi hunda.

„Hundar eru rándýr og hræætur sem hafa verið aðlagaðir að öðru hlutverki. Hundar finna mörg hundruð sinnum meiri lykt en við, það má segja að þeir lifi í lyktarheimi, í allt annarri veröld en við. Þar sem við sjáum ljósastaur, sjá þeir gestabók eða facebook-síðu, þeir „læka“ staurana með því að pissa á þá,“ segir Torfi. 

„Á móti sjá þeir talsvert verr en við. Við prímatar höfum svokallaða þrílita sjón, en hundar og flest spendýr eru með tvílita. Þeir sjá kannski ekki svarthvítt en þeir skynja liti á annan hátt. Það er ekkert ósvipað því að þeir séu með rauðgræna litblindu,“ segir Torfi og segir að sýnt hafi verið fram á þetta með atferlisathugunum og út frá lífeðlisfræði.

Heyrn hunda er líka nokkuð ólík mannsheyrninni. Þeir heyra hærri tíðni en fólk, að sögn Torfa sem segir að það skipti máli að átta sig á því hvernig hundar skynja heiminn, vilji fólk vilji skilja hunda betur.

Gleði hunds þarf ekki að vera eins og gleði manns

En hvað með tilfinningar hunda? „Ég hef velt fyrir mér hvort hundar og reyndar önnur dýr geti upplifað tilfinningar eins og gleði, sorg, leiða, reiði, hræðslu eða sektarkennd. Sumar tilfinningar eins og reiði eða hræðsla eru grunnliggjandi og það eru tiltekin hormón sem koma fram við þær. Aðrar eru menningarbundnar, eins og t.d. sektarkennd og afbrýðissemi og þær er erfitt að yfirfæra á dýr. Ef við sjáum kátan hund leika sér, þá getum við vel dregið þá ályktun að hann sé glaður. En það þarf ekki að vera eins og sú gleði sem við finnum fyrir.“

Fá hundar semsagt ekki sektarkennd þegar þeir gera eitthvað af sér? „Nei, það held ég ekki. Ég held að þeir séu algjörlega lausir við hana, en þeir geta lært hvenær þeir hafa framkvæmt eitthvað sem við bregðumst illa við.“

Refsingar ekki góð leið til að ala upp hunda

Á námskeiðinu fjallar Torfi einnig um atferlisvandamál hunda. „Margir hundar eiga erfitt með að vera einir heima á daginn og skemma þá hluti. Það þarf að gæta að því hvernig tekið er á slíku,“segir Torfi og tekur dæmi um hund sem hefur skemmt húsmuni og liggur síðan undir sófa þegar eigandinn kemur heim. „Ef hann fer að skamma hundinn, þá túlkar hundurinn það þannig að það sé slæmt að liggja undir sófanum og að það megi hann alls ekki gera aftur. Hann gæti þá orðið ruglaður í ríminu og stressaður, því hingað til hefur hann mátt liggja þar.“

Torfi segir að refsingar séu almennt ekki góð leið til að ala upp hunda. Erfitt sé að fá hundinn til að skilja að hverju refsingin beinist, helst þurfi að grípa hann í athæfinu til að hann skilji það.

Hundum getur liðið vel hvar sem er

Stundum heyrist sagt að illa sé farið með hunda að láta þá búa í þéttbýli, að hundum líði best í sveit. Torfi tekur ekki undir þetta. „Sumar hundategundir hafa verið kynbættar í hundruð ára til að gera eitthvað allt annað en að vera inni í litlum íbúðum meirihluta dagsins. En hundar eru mjög mismunandi og hafa mismunandi þarfir. Hundur sem býr í lítilli íbúð í miðborg Reykjavíkur getur átt stórkostlegt líf ef t.d. eigandinn er forfallið útivistarfrík og hundur sem býr í sveit getur haft það slæmt. Sumum hundum líkar vel að vera í bæjum, öðrum ekki. Það sem skiptir máli er að hundurinn fái mat, umönnun og hreyfingu.“

Hundurinn sem höfuð fjölskyldunnar

Að sögn Torfa er eitt af því sem gerir hundinn að svo ákjósanlegu gæludýri að hann er hópdýr. „Hundar eru náskyldir úlfum og eru hópdýr. Þetta er mjög mikið félagsdýr sem hefur aðlagast okkur og virðist eiga mjög auðvelt með að útvíkka hugmynd sína um hópinn. Flest önnur dýr myndu ekki gera það, heldur líta þau á manninn sem allt aðra dýrategund. Sum vandamál verða vegna þess að hundurinn skilgreinir sig sem foringja hópsins, sem höfuð fjölskyldunnar og fær að komast upp með það. Mjög undirgefin fjölskylda og ríkjandi hundur er ekki góð blanda.“

Eru hundaeigendur of gjarnir á að eigna hundunum mannlega eiginleika? „Ég held að það sé afar eðlilegt upp að ákveðnu marki, en samlíkingin á sér sín takmörk og stundum er gott að minna okkur á að við erum sín hvor tegundin.“

Dr. Torfi Jóhannesson, sérfræðingur í atferli og velferð dýra.
Dr. Torfi Jóhannesson, sérfræðingur í atferli og velferð dýra.
Eitt af því sem gerir hundinn að svo ákjósanlegu gæludýri …
Eitt af því sem gerir hundinn að svo ákjósanlegu gæludýri að hann er hópdýr, AFP
„Hundar eru rándýr og hræætur sem hafa verið aðlagaðir að …
„Hundar eru rándýr og hræætur sem hafa verið aðlagaðir að öðru hlutverki,“ segir Torfi. mbl.is/RAX
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert