38% munur á 8 tíma leikskólaplássi

Úr leikskólastarfi.
Úr leikskólastarfi. Molinn

Mikill munur er á gjaldskrá leikskóla eftir sveitarfélögum, en á síðasta ári hækkuðu fimm af 15 stærstu sveitarfélögum landsins gjaldið um allt að 15%. Ekkert sveitarfélag lækkaði gjaldskrána og munurinn á átta tíma vistunargjaldi nemur allt að 38%. Sveitarfélögunum er í sjálfsvald sett hversu mikið þau greiða þessa þjónustu niður.

Verðlagseftirlit ASÍ kannaði breytingar á gjaldskrám leikskóla á tímabilinu 1. janúar 2013 - 1. janúar 2014. Á vefsíðu ASÍ kemur m.a. fram að mesta hækkunin á almennri gjaldskrá fyrir átta tíma vistun var í Vestmannaeyjum, um tæp 15%, úr 29.829 kr. í 34.189 kr. og þar hækkaði níu tíma vistun um 9%.

102.000 krónur á ári

Hæsta gjaldið fyrir átta tíma vistun með máltíð er því í Garðabæ, þar sem það er 35.160 kr. Lægst er það í Reykjavík, 25.880 kr og munurinn á því og í Garðabæ er því 9.280 krónur á mánuði eða um 38%. Sé miðað við að barn sé á leikskóla í 11 mánuði á ári eru þetta rúmlega 102.000 krónur á ári hverju.

<div> </div><div>Á Akranesi  hækkaði gjaldið um 2,3% úr 32.278 kr. í 33.006 kr. en Hafnarfjörður og Akureyri hafa  hækkað minna. Þau sveitarfélög sem ekki hækkuðu gjaldskrá sína milli ára eru Reykjavík, Kópavogur, Skagafjörður, Árborg, Reykjanesbær, Fjarðabyggð, Seltjarnarnes, Ísafjörður, Fljótsdalshérað, Garðabær og Mosfellsbær. </div><div> </div><div>Þegar gjald fyrir níu tíma vistun með fæði er skoðað lítur dæmið nokkuð öðruvísi út, en árið 2012 var tæpur þriðjungur leikskólaplássa níu tímar eða lengur. Þar er hæsta gjaldið á leikskólum Fljótsdalshéraðs, 44.010 krónur, og lægst er það í Skagafirði, 32.706 krónur. Þarna munar 11.304 krónum á ári, sem miðað við 11 mánaða leikskólavist á ári eru 124.344 krónur.</div><h3>Misdýrar máltíðir</h3>

Í  töflu ASÍ kemur fram að verð máltíða er sömuleiðis afar mismunandi og þá er misjafnt hvort börnin greiða fyrir morgun- og síðdegishressingu og hvort greiða þarf ávaxtagjald.

Garðabær er eina sveitarfélagið í úttekt ASÍ þar sem ekki er greitt fyrir hressingu morguns og síðdegis, en í öðrum sveitarfélögum er greitt á milli 1.623 - 2.848 fyrir hana. Fæði í hádegi er ódýrast í Akraneskaupstað, þar sem það kostar 3.828 og dýrast í Garðabæ, en þar kostar það 6.840.

Talsverður munur er á systkinafslætti. Afsláttur með öðru barni er lægstur í sveitarfélaginu Árborg og Fljótsdalshéraði þar sem hann er 25%, hæstur er hann 50% og er það reyndar algengast. Afsláttur af gjöldum fyrir þriðja barn í fjölskyldu er frá 50 - 100% og algengt er að gjöld falli niður með fjórða barni.

<h3>Mikill munur á gjaldi fyrir forgangshópa</h3><div>Allt að 76% verðmunur er á hæsta og lægsta mánaðargjaldi fyrir forgangshópa í 8 tíma vistun ásamt fæði, en lægsta gjaldið fyrir þessa þjónustu greiða foreldrar í Reykjavík 15.320 kr. en hæsta gjaldið greiða foreldrar í Reykjanesbæ eða 26.880 kr. Lægsta mánaðargjaldið fyrir forgangshópa í 9 tíma vistun ásamt fæði er einnig í Reykjavík 20.495 kr. en hæsta gjaldið er á Fljótsdalshéraði, 35.146 kr., sem er 71% verðmunur. Til forgangshópa teljast yfirleitt einstæðir foreldrar og stundum foreldrar með tekjur undir tilteknu viðmiði og námsmenn.</div><h3>Foreldrar greiða um 18%</h3><div>Átta tíma vistun fyrir hvert leikskólabarn kostaði 1.578.000 krónur að meðaltali yfir árið 2012 og af því greiddi viðkomandi sveitarfélag að jafnaði 1.292.000, en foreldrar mismuninn. Sveitarfélögunum er í sjálfsvald sett hversu mikið þau greiða leikskólagjöldin niður, engin ákvæði eða lög kveða á um hversu mikið það á að vera. Samkvæmt upplýsingum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga hefur hlutur foreldra í leikskólagjöldum minnkað jafnt og þétt undanfarin ár.

„Fyrir um 10 árum var normið að hlutur foreldra væri um 30%, en það hefur minnkað og nú er hlutur foreldra að meðaltali 18%,“ segir Valgerður Ágústsdóttir hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. „Þannig að sveitarfélög eru að jafnaði að greiða niður yfir 80% af kostnaðinum. En það er misjafnt á milli sveitarfélaga, og foreldrar greiddu því allt frá 3% af rekstrarkostnaði og upp í 29% árið 2012.“

Að sögn Valgerðar hafa mörg sveitarfélög haldið að sér höndum hvað varðar hækkanir á leikskólagjöldum undanfarin ár og þær hafa alla jafna ekki fylgt verðlagsbreytingum. „Þá er rétt að hafa í huga að gjaldskrár sveitarfélaga eru misjafnlega uppbyggðar hvað varðar afslætti, þ.e. einstakir hópar eins og einstæðir foreldrar, námsmenn og barnmargar fjölskyldur geta stundum borgað umtalsvert minna en nemur almenna gjaldinu,“ segir Valgerður.

</div>
Leikskólabörn.
Leikskólabörn. Kristján Kristjánsson
Líf og leikur á leikskólanum Grandaborg.
Líf og leikur á leikskólanum Grandaborg. Heiðar Kristjánsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert