Lítil börn eiga ekki að deyja

Arndís Hrönn og Högni Egilsbörn ásamt Úlfhildi Júlíu, dóttur Arndísar.
Arndís Hrönn og Högni Egilsbörn ásamt Úlfhildi Júlíu, dóttur Arndísar. Kristinn Ingvarsson

Systkinin Arndís Hrönn og Högni Egilsbörn vinna nú í fyrsta skipti saman en hún leikur í Bláskjá, nýju verki eftir Tyrfing Tyrfingsson, í Borgarleikhúsinu og hann sér um tónlistina. Það átti fyrir þeim að liggja að verða listamenn. Vika er í frumsýningu.

„Meðan ég var að alast upp bjó Arndís í útlöndum,“ segir Högni en systir hans er sextán árum eldri. „Fyrst í París og síðan Vínarborg. Það var alltaf jafngaman að koma til hennar. Maður fékk innsýn í hið bóhemíska listalíf. Arndís reykti, það voru tómar rauðvínsflöskur á eldhúsborðinu heima hjá henni, bækur út um allt, málverk og þröngir gangar. Svo var farið á söfn. Ég er ekki í vafa um að allt hefur þetta haft áhrif á mig. Ég tengdi strax við þetta líf.“

Honum eru heimsóknirnar til Vínarborgar sérstaklega minnisstæðar. „Sambýlismaður Arndísar á þessum tíma var myndlistarmaður og það voru stór svört málverk upp um alla veggi. Hann hlæjandi og bullandi. Furðulegur maður en afskaplega heillandi. Allt fléttaðist þetta saman við stóíska hugleiðingu mína um heiminn. Af hverju þetta og af hverju hitt?“

Í viðtali í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins ræða systkinin einnig sáran missi en bróðir þeirra, Egill Högni, lést sviplega tæplega fimm ára gamall.

„Lítil börn eiga ekki að deyja,“ segir Arndís. „Ég var fimmtán ára þegar þetta gerðist, á miðri gelgjunni. Sorginni fylgdi reiði – út í Guð og alla. Hvers vegna var bróðirinn minn tekinn frá mér? Svo varð mamma aftur ólétt, að tvíburum. Mögulega hefur tengingin við þá orðið sterkari fyrir vikið. Þeir urðu strax svo dýrmætir vegna þess að við vissum að það væri ekki sjálfsagt að þeir væru til. Hvort það er út af þessu eða einhverju öðru þá hefur mér alltaf fundist ég bera ábyrgð á Andra og Högna.“

Högni segir bróðurmissinn líka hafa fylgt sér alla tíð. „Meðan ég var barn sat alltaf í mér einhver hugmynd um þennan horfna bróður minn. Og gerir enn. Það voru myndir af honum á heimilinu og um hann var talað. Svo ber ég nafn hans. Þetta fékk mig til að velta fyrir mér úr hverju ég væri gerður. Sögur eins og Bróðir minn ljónshjarta snertu mig djúpt og eflaust hef ég snemma þróað með mér hugmyndir um dauðann. Börn dreymir almennt mjög mikið og lifa innra lífi, það er að segja lífi sem ekki er í tengslum við veruleikann. Þetta var vatn á þá myllu. Ævintýrið innra með mér varð ljóslifandi og dró fram sköpunina sem mér þykir svo afskaplega vænt um. Og mín sköpun snýst um að tjá fegurðina í lífinu.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert