Makrílfundi lauk án niðurstöðu

Makrílveiðar á Vigra RE 71.
Makrílveiðar á Vigra RE 71. mbl.is/Árni Sæberg

Samningafundi Íslendinga, Norðmanna, Færeyinga og Evrópusambandsins um skiptingu makrílveiðikvótans lauk í Bergen í Noregi í dag án niðurstöðu. Sigurgeir Þorgeirsson, formaður íslensku sendinefndarinnar, segir þó að viðræðum hafi ekki verið slitið og því kunni að verða boðað til annars fundar fljótlega meti menn það svo í einhverju landi að hægt sé að ná samningum.

Norska blaðið Fiskeribladet/Fiskaren hafði í morgun eftir John Spencer, formanni samninganefndar ESB, að einungis 0,6% skildu á milli deiluaðila.  Sigurgeir sagði hins vegar við mbl.is, að munurinn væri meiri en bilið hefði þó mjókkað umtalsvert á fundinum í Bergen nú í vikunni.

En einnig væri tekist á um heildarafla makríls, hvað eðlilegt og réttlætanlegt væri að veiða mikið úr stofninum.  Íslendingar vildu að vísindaráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins, ICES, yrði fylgt að mestu og ekki yrði vikið meira frá henni en öruggt mætti teljast. Hins vegar hefðu ákveðnir aðilar haldið stíft við kröfu um að heildaraflinn yrði 40-60% umfram þá ráðgjöf.

Jacob Vestergaard, sjávarútvegsráðherra Færeyja, segir við vefinn portal.fo, að ríkin hafi hvorki náð samkomulagi um heildarveiðikvótann né skiptingu hans en ekki hafi þó mikið borið á milli. Vestergaard segist  gera ráð fyrir því að menn verði í símasambandi strax eftir helgina og hugsanlega verði viðræðum haldið áfram í London í næstu viku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert