Leit hefur engan árangur borið

Umfangsmikil leit að bát sem sendi neyðarkall um miðjan dag í dag hefur ekki borið árangur. Neyðarkallið heyrðist í báti við Akranes og í kerfi LHG og þar kom fram að leki væri komin að bátnum og menn væru að fara í björgunargalla. Engar frekari upplýsingar hafa borist síðan og ekki vantar skip inn í tilkynningaþjónustuna hjá Vaktstöð siglinga. 

Nú eru tvær björgunarþyrlur Landhelgisgæslunnar, TF-GNÁ og TF-LIF, við leit og tvær finnskar björgunarþyrlur, sem staddar voru hér á landi vegna æfingarinnar Iceland Air Meet 2014, eru einnig nýttar við leitina en þær fljúga nú yfir norðanverðan flóann. 

Björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar frá Grindavík, Sandgerði, Hafnarfirði, Reykjavík og Rifi eru einnig við leit auk nokkurra minni björgunarbáta. Björgunarsveitir og lögregla á svæðinu eru með eftirgrennslan frá landi. 

Leitarsvæðið er víðfeðmt, en segja má að það nái frá Reykjanestá að austasta hluta Snæfellsness en áhersla er lögð á að leita innarlega í Faxaflóa þar sem báturinn sem heyrði neyðarkallið var staddur rétt utan við Akranes. Veðurspá á leitarsvæðinu gerir ráð fyrir norðaustan 10-20 m/sek, skýjuðu með köflum og hita í kringum frostmark.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert