Maðurinn kominn í sjúkrabíl

mbl.is/Ómar

Björgunarsveitir hafa lokið við að flytja karlmann á sjötugsaldri út úr íshelli í Breiðamerkurjökli þar sem hann féll við klifur fyrr í dag. Björgunarsveitarmenn fluttu hann niður að jökulröndinni þar sem sjúkrabíll beið og er hann nú kominn í bílinn. Þaðan verður hann fluttur á Höfn í Hornafirði, samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörg.

Töluverðan tíma tók að ná manninum upp úr íshellinum en hann var um 200 metra inni í hellinum og þurftu björgunarmenn að vaða mittisdjúpt vatn með manninn. Ferðin niður jökulinn gekk þó nokkuð vel. Maðurinn er Þjóðverji og var hann við ísklifur með ferðaþjónustumanni.

Um var að ræða tvo staka hópa, annars vegar leiðsögumann sem var með manninum sem slasaðist og hins vegar leiðsögumann með tveimur öðrum ferðamönnum. Þegar slysið varð kom sá leiðsögumaður sem var með hina tvo ferðamennina til aðstoðar.

Alls tóku 30-40 björgunarsveitarmenn þátt í aðgerðinni í dag enda um seinlegt og erfitt svæði að ræða. Áætlað er að björgunarmenn verði komnir til síns heima um níuleytið í kvöld.

Björgunarsveitarmenn voru komnir að íshellinum um fimmleytið í dag, en þeim tókst að flytja manninn út úr honum um klukkan sjö.

Upplýsingar um meiðsl mannsins liggja ekki fyrir.

Frétt mbl.is: Björgunarsveit komin á vettvang

Frétt mbl.is: Slys við Breiðamerkurjökul

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka