Við erum öll að glíma við ísinn

Helgi Björnsson, vísindamaður við Jarðvísindastofnun Háskólans, fjallaði um mikilvægi alþjóðlegs …
Helgi Björnsson, vísindamaður við Jarðvísindastofnun Háskólans, fjallaði um mikilvægi alþjóðlegs samstarfs í jöklafræði mbl.is/Golli

„Þetta eru staðreyndir. Það má rífast um það hvaða ástæða er fyrir þessu en sjávarborð hefur hækkað og það er staðreynd,“ sagði Helgi Björnsson, vísindamaður við Jarðvísindastofnun Háskólans, á hádegisfyrirlestri um jökla og breytingu á þeim. Hann sagði málið stórt og kalla á alþjóðlegt samstarf.

Vísindamenn frá Bandarísku geimferðastofnuninni (NASA) og Caltech-háskóla í Kaliforníu eru hér á landi við rannsóknir á Langjökli og Hofsjökli. Notast er við sérhæfða rannsóknarflugvél NASA og stanslaust flogið yfir jöklana tvo til að skrásetja breytingar á þeim. Teymið gerði það sama sumarið 2012 og verða mælingarnar svo bornar saman. Líklegt er að frekari mælingar verði svo gerðar síðar til enn frekari samanburðar.

Flogið er á G-III flugvél NASA sem breytt var úr einkaþotu í rannsóknarflugvél. Búnaður hennar er þannig að hægt er að fljúga yfir sama svæði á nákvæmlega sama hraða og nákvæmlega sömu leið aftur síðar. Þá er hún búin sérstakri ratsjá sem notuð er til mælinga. Vonast er til að hægt verði að koma ratsjánni fyrir á ómannaðri þotu og þá fjarstýrðri, sem hægt verði að fljúga enn lengur yfir tiltekin svæði, jafnvel heilan dag.

Í tilefni af rannsóknunum var haldinn fyrirlestur um jökla og breytingar á þeim í Háskóla Íslands. Fyrstur á mælendaskrá var Helgi Björnsson sem sagði jarðarbúa alla glíma við ísinn. Jöklarnir séu að bráðna og þar með hækkar yfirborð sjávar. Það sé stórt verkefni að rannsaka og enn stærra verkefni að finna lausnir við þessu vandamáli. Þetta verkefni kalli á alþjóðlegt samstarf og það sé í gangi hér á landi um þessar mundir. Greina þurfi hvað framtíðin beri í skauti sér, því massinn sé að minnka og bráðnunin nái norðar.

Mark Simons, prófessor í jarðeðlisfræði, kemur að rannsóknunum hér á landi. Hann sagði teymið ekki velta fyrir sér hækkandi sjávarborði sem stendur, heldur sé einblínt á jöklana tvo, helst Hofsjökul, og hvað sé að gerast í þeim. Skoðað sé hvernig jöklarnir haga sér og hvernig þeir bregðast við loftslagsbreytingum. Þeir séu fullkomnir til rannsókna þar sem þeir eru stærri en fjalljöklar en nógu litlir til að hægt sé að gera flókin líkön af þeim. Þá hafi þeir verið rannsakaðir mikið og nýtast upplýsingar úr þeim rannsóknum vel.

Einnig tók Brent Minchew, doktorsnemi í jarðeðlisfræði við Caltech-háskóla, til máls.  Hann sagði að í júní í fyrra hafi rannsóknarflugvélinni verið flogið í meira en fjörutíu klukkustundir á tólf dögum yfir jöklunum og gögnum safnað. Þar með séu komin gögn um jöklana um hásumar og nú vanti gögn um þá á hávetri en þá ætti að sjást hvaða áhrif leysingarvatn hefur á ísflæði.

Rannsóknin í heild ætti að geta gefið vísbendingar um bráðnun jöklanna og geti nýst í því að læra á hvernig jöklar bregðast við loftslagsbreytingum.

Frá jöklafundi í Háskóla Íslands
Frá jöklafundi í Háskóla Íslands mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert