Vatnsdrykkirnir eyða líka glerungi

Myndin sýnir glerugnseyðingu og tannátu.
Myndin sýnir glerugnseyðingu og tannátu.

Glerungseyðing í tönnum barna og unglinga er mikið vandamál hér á landi. Neyslu súrra drykkja er um að kenna og fátt er hægt að gera þegar glerungur hefur eyðst. Þetta segir Inga B. Árnadóttir prófessor við tannlæknadeild Háskóla Íslands. Hún segir að margir svokallaðir vatnsdrykkir innihaldi mikla sýru.

Tíð og mikil neysla á drykkjum með lágt sýrustig, aðallega gos-, íþrótta-, orku- og ávaxtadrykkjum, er talin helsta orsök glerungseyðingar.

Glerungseyðing barna og unglinga var síðast rannsökuð árið 2005. Sú rannsókn leiddi í ljós að um 15,7% 12 ára barna á Íslandi, 19,9% drengja og 11% stúlkna og 30% 15 ára unglinga voru með glerungseyðingu á einhverri tönn, 38,3% drengja og 22,7% stúlkna, að sögn Ingu. Spurð um ástæðuna segir hún neysluvenjum um að kenna, að drengir drekki meira gos. „Ef þessir krakkar hafa ekki breytt um neysluvenjur, þá gætu þau hafa lent í miklum vanda.“

Fosfórsýra og sítrónusýra

„Það sem veldur glerungseyðingu eru fosfórsýra sem er t.d. að finna í kóladrykkjum og sítrónusýra sem er t.d. í ávaxtasafa, appelsíni og ýmsum vatnsdrykkjum. Þetta eru mjög kröftugar sýrur sem fletta glerungnum af tönnunum,“ segir Inga. „Glerungseyðing er mjög alvarlegt vandamál, hún er óafturkræf og hana er erfiðara að meðhöndla en tannskemmdir.“

Gera þyrfti nýja rannsókn

Hún segir þörf á að gera aðra rannsókn til að sjá hvernig staðan er í dag, en hún óttast að ástandið hafi ekki batnað frá þeirri síðustu. Neysla gosdrykkja og annarra súrra drykkja hafi ekki minnkað og þá hafi komið á markað ýmsir drykkir sem innihaldi meiri sýru en fólk geri sér grein fyrir.

„Farið var að framleiða alls konar vatnsdrykki, en sumir innihalda sýru og þeir geta verið jafnglerungseyðandi og gosdrykkir,“ segir Inga. „Auðvitað ætti að merkja vörur þannig að fólk viti hvort þær innihaldi glerungseyðandi efni. Við tannlæknar höfum farið fram á það við gosdrykkjaframleiðendur að þeir séu merktir með brosköllum, þannig að neytendur geti auðveldlega séð hvort þeir innihaldi glerungseyðandi efni. Ég veit til þess að það sé gert í sumum Evrópulöndum. En það sem skiptir miklu máli í þessu sambandi er að fólk sé meðvitað um hvað það er að drekka og lesa utan á umbúðirnar.“

Nú stendur yfir árleg tannverndarvika Embættis landlæknis og þema hennar í ár er „Leiðin að góðri tannheilsu“. Þar er m.a. vakin athygli á því að dagleg tannhirða og hollar neysluvenjur eru forsendur góðrar tannheilsu. Að auki minnir embættið á að vatn er besti drykkurinn fyrir tennurnar.

Stöplaritið sýnir meðalfjölda tanna með glerungseyðingu hjá nemendum í 10. …
Stöplaritið sýnir meðalfjölda tanna með glerungseyðingu hjá nemendum í 10. bekk eftir því hversu oft í viku þeir neyta súrra drykkja.
Inga B. Árnadóttir, prófessor við tannlæknadeild Háskóla Íslands.
Inga B. Árnadóttir, prófessor við tannlæknadeild Háskóla Íslands.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert