Ríkisstjórnin „í hópi ójafnaðarmanna“

Flokksráðsfundur VG var settur á Grand hóteli í Reykjavík í …
Flokksráðsfundur VG var settur á Grand hóteli í Reykjavík í dag. mbl.is/Ómar Óskarsson

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, segir að ríkisstjórnin hafi stillt sér upp í hópi ójafnaðarmanna. Í ávarpi við upphaf flokksráðsfundar Vinstri grænna í kvöld gagnrýndi hún ríkisstjórnina harðlega fyrir að lækka meðal annars sérstaka veiðigjaldið, skera niður framlög til þróunarmála og lækka skatta í millitekjukerfinu.

Í ávarpinu sagði hún að ríkisstjórnin hefði ekki haft fólkið í fátækustu löndum heims efst í huga þegar kom að fjárlögum ársins í ár. Framlög til Þróunarsamvinnustofnunar hefðu ekki aðeins staðið í stað, heldur beinlínis verið skorin sérstaklega niður milli umræðna.

Mátti ekki afla tekna til að efla jöfnuð

Katrín sagði að fyrsta mál ríkisstjórnarinnar hefði verið að lækka sérstaka veiðigjaldið, hóflegt gjald sem mörgum hafði þótt of lágt, til að tryggja hag stórútgerðarinnar. „Og það var meðal annars þess vegna sem stjórnarliðar sögðu að því miður væru ekki til peningar fyrir þróunarsamvinnu og fleiru. Það var vegna þess að það þurfti að gæta að þessum sérhagsmunum. Og ekki mátti hafa eðlilegan virðisaukaskatt á ferðaþjónustu sem hefði lagst á þá ferðamenn sem sækja okkur heim.

Í stuttu máli mátti ekki afla tekna til að efla jöfnuð hvort sem væri á heimsvísu eða hér heima,“ sagði hún í ávarpinu.

Stillt sér upp í hópi ójafnaðarmanna

Hún sagði að núverandi ríkisstjórn hefði sýnt það í orði og verki að ekki mætti auka jöfnuð hér heima með skattkerfinu. Hennar sannfæring væri sú að ekki mætti auka jöfnuð með því að lyfta þeim tekjulægstu í hópi öryrkja og aldraðra því að þær leiðréttingar sem ráðist var í í sumar hefðu fyrst og fremst gagnast þeim tekjuhærri.

„Hennar sannfæring er að mikilvægara sé að tryggja arðgreiðslur til útgerðarmanna en að efla jöfnuð þjóða á milli með framlögum til þróunarsamvinnu. Hún hefur stillt sér upp í hópi ójafnaðarmanna, manna sem telja sig eiga rétt á því að taka eignir annarra,“ sagði Katrín.

Sporna gegn hugmyndarömmum hægristefnunnar

Þá sagði hún að flokkurinn ætti að sporna gegn hugmyndarömmum hægristefnunnar sem hefðu gert óréttlæti og ójöfnuð að eðlilegu viðmiði í samfélaginu. 

„Við eigum ekki að spila á þeim leikvangi sem hægrimenn hafa reist eftir reglum sem þeir hafa samið,“ sagði hún jafnframt.

„Við eigum að vera óhrædd við að vera málsvarar réttlætis og láta aldrei teyma okkur nauðhyggjustíginn sem einkenndi orðræðu stjórnarflokkanna við síðustu fjárlög þar sem þeir létu stöðugt eins og niðurskurðurinn væri allur af nauð en ekki vegna þess að þeir kusu að afsala almenningi tekjum í þágu hinna ríku.“ 

Frá flokksráðsfundinum.
Frá flokksráðsfundinum. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert