Áfelli yfir rannsókn saksóknara

Guðmundur Hjaltason og Þórður Bogason, verjandi hans, við aðalmeðferð málsins …
Guðmundur Hjaltason og Þórður Bogason, verjandi hans, við aðalmeðferð málsins í héraðsdómi. mbl.is/Styrmir Kári

Þórður Bogason, lögmaður Guðmundar Hjaltasonar, fagnar niðurstöðu Hæstaréttar í Vafningsmálinu svokallaða, en Guðmundur og Lárus Welding voru í dag sýknaðir af ákæru fyrir umboðssvik með því að hafa ákveðið og samþykkt 102 milljóna evra peningamarkaðslán til Milestone 8. febrúar 2008.

Þórður segir í samtali við mbl.is, að niðurstaðan sé í samræmi við þau rök sem ávallt hafi verið haldið fram í málinu af hálfu ákærðu. „Enn einu sinni hefur Hæstiréttur staðið vörð um réttarríkið þegar héraðsdómur gerir það ekki,“ segir Þórður.

Þá segir hann, að það hljóti að vekja gagnrýni með hvaða hætti rannsókn málsins var hagað. Að það sé ekki gengið úr skugga um þennan mikilvæga þátt málsins, en Þórður vísar til þess að Hæstiréttur taldi að ákæruvaldinu hefði ekki tekist að sanna að lánveiting Glitnis til Milestone 8. febrúar 2008 hefði falið í sér verulega fjártjónshættu. 

„Það var ekki tjón og til þess að þú beitir þessu ákvæði þá þarf auðvitað að vera veruleg fjártjónshætta og ákæruvaldið er ekki á neinn hátt að leitast við að skýra það. Að þessu leyti er þetta áfelli yfir hvernig sérstakur saksóknari stendur að rannsókn,“ segir Þórður.

Hann segir að Guðmundur muni ekki tjá sig um málið og þá segist Þórður ekki geta tjáð sig nánar um dóm Hæstaréttar að svo stöddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert