150 milljónir í Hofsvallagötu

Hofsvallagata.
Hofsvallagata. mbl.is/Árni Sæberg

Endurhönnun á Hofsvallagötu milli Hringbrautar og Ægisíðu er í burðarliðnum og var staða breytinga kynnt fyrir umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur í dag, 19. febrúar. Samráð verður áfram haft við íbúa og opinn íbúafundur með boðaður fljótlega, að því er segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Framkvæmdir munu hefjast á þessu ári og eru 150 milljónir ætlaðar til verksins. Stefnt er að því að hönnunarvinnu ljúki í sumar  og framkvæmdum næsta vetur.

Verkfræðistofan EFLA og landslagsarkitektar frá vinnustofunni Landslag verða ráðgjafar við verkið.

Í tilkynningunni segir að samráðið við íbúa hafi haist með tímabundinni breytingu á Hofsvallagötu á liðnu ári. Einstakt tækifæri hafi gefist til að kanna viðbrögð meðal vegfarenda og íbúa áður en ráðist yrði í varanlega hönnun sem nú sé á frumstigi.

Samráðshóp var til að mynda komið á fót eftir íbúafund vegna tímabundnu framkvæmdanna og skilaði hann af sér góðu starfi.

„Þegar drög frá hönnuðum liggja fyrir verður boðað til íbúafundar með vinnufundarsniði. Þá verður unnið með niðurstöður úr samráðinu í endanlegri hönnun götunnar og hún verður kynnt á vefsvæði Reykjavíkurborgar, í þjónustumiðstöð Vesturbæjar, sundlaug og í hverfisverslunum. Hægt verður að senda inn athugasemdir við hönnunina í tvær vikur,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir jafnframt að framkvæmdin sé liður í því að framfylgja nýju aðalskipulagi Reykjavíkur þar sem að öllum ferðamátum sé gefið rými á götum borgarinnar. Hofsvallagata sé aðalgata í þessum hverfiskjarna í Vesturbænum en við endurhönnun slíkra gatna eigi þarfir og öryggi hjólandi, gangandi og hreyfihamlaðra ávallt að vera í fyrirrúmi.

Markmiðið að draga úr hraða bílaumferðar

Markmið breytinganna sé meðal annars að draga úr hraða bílaumferðar, hávaða og bæta öryggi og loftgæði.

„Hofsvallagata er falleg gata fyrir margar sakir en frá efsta punkti hennar er bein sjónlína niður að sjó sem er einstakt fyrir breiðgötu í borgarumhverfi Reykjavíkur. Sérfræðingar borgarinnar hafa skoðað hvað komist fyrir í götuþversniðinu og metið þá þætti sem mikilvægast er að lagfæra og rýnt aðstæður á gatnamótum.

Við endurgerð hennar verða bæði reinar fyrir bifreiðar og reiðhjól auk gangstétta og fyrirkomulag bílastæða endurskoðað. Einnig er gert ráð fyrir umferðar- og gangbrautarljósum,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert