40 m/s undir Eyjafjöllum

Veðurstofan spáir 40 m/s í hviðum undir Eyjafjöllum og í …
Veðurstofan spáir 40 m/s í hviðum undir Eyjafjöllum og í Öræfum í kvöld. mbl.is/Kristinn

Í kvöld og fram eftir nóttu má búast áframhaldandi hvassviðri og stormi við suðurströndina og vindhviðum allt að 40 m/s undir Eyjafjöllum og í Öræfum, eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Einnig má búast við vindhviðum um landið suðvestanvert fram á nótt, allt að 30 m/s á Kjalarnesi og við Hafnarfjall. Samhliða hvassviðrinu er gert ráð fyrir slyddu eða snjókomu með köflum sunnan- og suðaustantil á landinu og því gæti færð spillst þar í kvöld og nótt.

Vegir eru að mestu auðir á Suður- og Suðvesturlandi en þó er hálka á Sandskeiði og á Hellisheiði. Óveður er á Kjalarnesi, undir Eyjafjöllum og á Reynisfjalli.

Það er hálka og skafrenningur á Holtavörðuheiði og Vatnaleið en snjóþekja á Bröttubrekku. Einnig er sumsstaðar hálka eða hálkublettir á útvegum á Vesturlandi.

Á Vestfjörðum er hálka á flestum fjallvegum en hálkublettir víðast hvar á láglendi.  Snjóþekja er þó á Þröskuldum og á Steingrímsfjarðarheiði.

Hálka eða hálkublettir eru mjög víða á Norðurlandi og skafrenningur á flestum fjallvegum.  Þungfært og skafrenningur er á Hólasandi og ófært á Mývatnsöræfum.

Ófært er nú orðið á Möðrudalsöræfum og Fjarðarheiði en þungfært á Vatnsskarði eystra en annars er hálka eða snjóþekja á flestum leiðum á  Austurlandi. Snjóþekja og skafrenningur á Fagradal og á Oddskarði. Hálkublettir eru frá Fáskrúðsfirði og að Hvalnesi en svo er greiðfært áfram suður um land. Óveður er í Öræfum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert