ESB-stefnan var kosin burtu

Vigdís Hauksdóttir í ræðustól í dag.
Vigdís Hauksdóttir í ræðustól í dag.

„ESB-stefnan var kosin burtu í síðustu kosningum. Þannig er staðan,“ sagði Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, í umræðu um störf þingsins á Alþingi í dag. Hún sagði sorglegt að verða vitni að málflutningi minnihlutans um málið, enda sama fólk og felldi tillögu um að kjósa um framhaldið.

Þar vísaði Vigdís til þess að hún lagði fram tillögu í maí 2012 um að þjóðin yrði spurð hvort halda ætti viðræðum áfram eða ekki. Sú tillaga hafi verið felld.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, sagði ekkert vera að gerast sem koma ætti mönnum á óvart. Stjórnarflokkarnir séu einfaldlega að leggja fram tillögu í samræmi við stefnuna í utanríkismálum. Þá sé það miklu stærra skref að sækja um aðild að ESB en að viðhalda sambandi við sambandið í gegnum EES-samninginn, eins og fram kemur í þingsályktunartillögu utanríkisráðherra. 

Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, sagði þetta hins vegar koma algjörlega á óvart. Það væri vegna þess að formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefðu ekki greint frá þessari fyrirætlan fyrir kosningarnar. Þeir sögðust ekki ætla að slíta viðræðum við Evrópusambandið fyrir kosningar. Þess vegna komi þetta á óvart.

Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingar, sagði að ómöguleiki væri einkennisorð ríkisstjórnarinnar. Henni sé ómögulegt að efna eitt einasta loforð sem hún hefur gefið og stór orð hennar hafi öll verið marklaus. Ríkisstjórnin hafi aldrei ætlað sér að hlusta á þjóðina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert