Fjölmiðlar á Möltu fjalla um Vigdísi

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Dagblaðið Times of Malta vekur í frétt á vef sínum athygli á þeim ummælum Vigdísar Hauksdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, að Malta sé ekki sjálfstætt ríki heldur sjálfstjórnarríki innan stærra lands. Ummæli Vigdísar féllu í umræðuþætti Mikaels Torfasonar, Mín skoðun, á sunnudagsmorgun.

Í frétt Times of Malta segir að Vigdís hafi borið Möltu saman við Vestmannaeyjar, þar sem um 4.000 manns búi. Þá kemur fram að hún hafi ekki útskýrt hvaða landi Malta tilheyrði.

Einnig kemur fram í fréttinni að Vigdís hafi haldið því fram að hungursneyð ríkti í Evrópu.

Nokkuð margir hafa sagt skoðun sína á fréttinni. Einn segir m.a.: „Ferðamenn frá Möltu eiga eftir að flæða yfir Ísland eftir þessi ummæli.“

Annar tekur í nokkru undir orð Vigdísar og segir að í raun sé Malta ekki lengur sjálfstætt ríki, það sé sjálfstjórnarríki í Evrópusambandinu.

Og sá þriðji segir: „Malta er sjálfstæðara en hennar heittelskaða Írland - klaufaleg athugasemd, heldur betur.“

Ekki er ljóst hvort sá síðastnefndi er að taka grínið aðeins lengra með því að segja Vigdísi frá Írlandi - eða hvort um aðra klaufalega athugasemd er að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert