Ósáttur við ummæli Vigdísar

Birkir Jón Jónsson, fyrrverandi alþingismaður.
Birkir Jón Jónsson, fyrrverandi alþingismaður. mbl.is/Ómar

„Ég var þarna fyrst og fremst að lýsa minni upplifun af því að starfa á Alþingi og samskiptum við starfsfólk þingsins sem voru afskaplega góð. Ég trúi ekki öðru en að það sama eigi almennt við um þá sem gegnt hafa þingmennsku. En vitanlega getur upplifun fólks verið ólík í þessu eins og öðru.“

Þetta segir Birkir Jón Jónsson, fyrrverandi alþingismaður Framsóknarflokksins, í samtali við mbl.is en hann skrifaði á Facebook-síðu sína í gær að hann hefði á þeim áratug sem hann gegndi þingmennsku eignast marga góða vini meðal starfsfólks Alþingis. „Var m.a. daglegur gestur í eldhúsinu þar sem ég var alltaf kallaður „Lilli“ af Siggu sem þar ræður ríkjum.“ Tilefni skrifanna var gagnrýni sem fram kom hjá Vigdísi Hauksdóttur, þingmanni flokksins, í viðtali í nýjasta tölublaði Monitor á starfsmenn þingsins. Þar sagði hún eftirfarandi:

„Það er mjög gaman að hafa fengið að upplifa það Alþingi sem var og hét þegar virðing þess var sem mest. Viðbyggingin var ekki komin, starfsfólk þingsins ávarpaði ekki þingmenn. Og það fylgdi því mikil virðing að vera alþingismaður. Síðan hefur þetta breyst mikið og andrúmsloftið og öll umgjörðin finnst mér orðin allt öðruvísi. Eftir að fjölmiðlar byrjuðu að sparka meira í þingmenn þá finnst mér viðhorf starfsmannanna líka breytast. Það þykir mér óskaplega leiðinlegt og það er eins og þessar gömlu, góðu hefðir þingsins hafi ekki skilað sér nógu vel inn í nútímann. Starfsmenn þingsins eiga að sjá til þess að allar hefðir séu í heiðri hafðar en nú er þetta orðið allt of frjálslegt fyrir minn smekk.“

Birkir lýsti sig mjög ósáttan við ummæli Vigdísar um starfsfólk Alþingis í Facebook-færslunni. „Yndislegt fólk sem var tilbúið að aðstoða mig á allan hátt - án þess að ávarpa mig sérstaklega. Ég trúi því ekki að þetta viðtal endurspegli skoðanir þingmanna almennt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert