Evrópumálin tekin fyrir í dag

mbl.is/Hjörtur

Framhald fyrstu umræðu um þingsályktunartillögu Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra, þess efnis að umsóknin um inngöngu Íslands í Evrópusambandið verði dregin til baka, er á dagskrá Alþingis í dag en þingfundur hefst klukkan 15:00. Samtals eru tæplega þrjátíu mál á dagskrá þingsins í dag.

Tvær þingsályktunartillögur frá stjórnarandstöðunni um að þjóðaratkvæðagreiðslur fari fram um framhald umsóknarferlisins að Evrópusambandsins eru á dagskrá Alþingis í beinu framhaldi. Annars vegar tillaga þar sem gert er ráð fyrir að þjóðaratkvæði fari fram í vor samhliða sveitarstjórnarkosningum. Flutningsmenn tillögunnar eru þingmenn Pírata auk þingmanna frá Samfylkingunni og Bjartri framtíð. Fyrsti flutningsmaður er Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata.

Hin þingsályktunartillagan er frá þingflokki Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs þar sem gert er ráð fyrir áframhaldandi formlegu hléi á umsóknarferlinu og að þjóðaratkvæði um framhald þess fari fram fyrir lok kjörtímabilsins. Fyrsti flutningsmaður er Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.

Síðasta mál á dagskrá Alþingis er frumvarp til breytinga á lögum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna þar sem gert er ráð fyrir að heimilt verði að halda þjóðaratkvæði um framhald umsóknarferlisins að Evrópusambandinu samhliða sveitarstjórnarkosningunum 31. maí næstkomandi þrátt fyrir ákvæði laganna um að þrír mánuðir verði að líða hið minnsta frá ákvörðun um að leggja mál í þjóðaratkvæði og þess tíma þegar það fer fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert