Dæmd fyrir að svíkja IKEA

Ikea.
Ikea.

Karlmaður á fimmtugsaldri og kona á fertugsaldri voru dæmd í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Fólkið var sakfellt fyrir fjársvik en þau blekktu starfsfólk IKEA til að afgreiða nokkrar vörur án þess að þau greiddu fullt verð fyrir þær.

Fólkið var ákært fyrir fjársvik með því að hafa í sameiningu á tímabilinu 1. september til 30. september 2012, í alls fimm skipti, við kaup á vörum í verslun IKEA í Kauptúni í Garðabæ, blekkt starfsmenn við afgreiðslukassa til að afgreiða nokkrar vörur án þess að þau greiddu fullt verð fyrir þær. Fram kemur í ákæru að þau hafi komið fyrir eða nýtt sér að strikamerki af ódýrari vöru, barnastól  að verðmæti 3.490 kr., hafði verið komið fyrir á umbúðum þeirra. Í framhaldi skiluðu ákærðu vörunum, án kvittunar, og fengu inneignarnótu í versluninni að verðmæti þeirrar vöru sem skilað var. Með þessum hætti fengu þau vörur, samtals að fjárhæð 269.750 kr., gegn greiðslu alls kr. 17.450 kr.

Sama par er ennfremur ákært fyrir tilraun til fjársvika með því að hafa í sameiningu þann 15. desember 2012, við kaup í verslun IKEA, reynt að blekkja starfsmann við afgreiðslukassa til að afgreiða speglaskáp, að verðmæti 44.950, gegn greiðslu að fjárhæð 3.490, með því að koma fyrir eða nýta sér að strikamerki af barnastól, að verðmæti 3.490, hafði verið komið fyrir á umbúðum speglaskápsins en starfsmaðurinn tók eftir að rangt strikamerki var á vörunni áður en til greiðslu kom.

Frétt mbl.is: Játningar og neitanir í IKEA-máli

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert