Metfjöldi hælisumsókna hér á landi á síðasta ári

Hælisleitendur á Íslandi.
Hælisleitendur á Íslandi. mbl.is

Á síðasta ári bárust íslenskum stjórnvöldum 172 umsóknir um hæli hér á landi eða um 47% fleiri en árið á undan. Þrefalt fleiri einstaklingar áttu hælismál til meðferðar í lok árs 2012 en í lok árs 2008. Mál safnast upp í kerfinu, ekki hefur tekist að halda í við fjölgun umsókna. Langur biðtími eftir úrlausn mála hefur slæm áhrif á andlega og líkamlega heilsu hælisleitenda og er orðinn stærsta vandamálið í málaflokknum að sögn upplýsingafulltrúa Rauða krossins.

Aldrei höfðu fleiri mál beðið úrlausnar hjá yfirvöldum í málefnum hælisleitenda og í lok árs 2012. Þá biðu 140 einstaklingar eftir úrlausn eða meðferð sinna mála.

Á síðasta ári barst svo metfjöldi umsókna um hæli á Íslandi, eða 172 umsóknir.

Endanlegar tölur yfir það hvernig staðan var í málefnum hælisleitenda í lok árs 2013 liggja ekki fyrir en ljóst er að mál sem biðu úrlausnar í lok síðasta árs eru mun fleiri en í lok árs 2012.

Ekki liggur fyrir hversu margir fengu hæli eða dvalarleyfi á Íslandi á síðasta ári en alls hlutu 17 einstaklingar alþjóðlega vernd hér á landi á árinu 2012.

Með hugtakinu alþjóðleg vernd, sem hefur verið tekið upp í gögnum Rauða krossins, er átt við þá hælisleitendur sem annaðhvort er veitt dvalarleyfi eða veitt réttarstaða flóttamanns. Hið fyrrnefnda er algengara, þá ýmist á grundvelli mannúðarsjónarmiða og/eða vegna sérstakra tengsla við landið.

Rauði krossinn hefur það hlutverk í umboði Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna að gæta þess að hælisleitendur fái réttláta málsmeðferð og mannúðlega meðferð hér á landi.

„Stærsta vandamálið í þessum málaflokki er hvað biðtíminn er langur,“ segir Sólveig Ólafsdóttir, upplýsingafulltrúi Rauða krossins.

Hún segir að miðað við úttekt sem gerð hefur verið á aðstæðum hælisleitenda hér á landi sé það mat Flóttamannastofnunarinnar að almennt sé ástandið hér gott, þ.e. að ekkert sé í raun við aðbúnaðinn að athuga þótt hann sé látlaus. Hins vegar sé biðtíminn hið raunverulega vandamál í málefnum hælisleitenda hér á landi.

Eins og sjá má á töflu hér að ofan hefur kerfið ekki náð að halda í við fjölgun umsókna um hæli.

Þörfin fyrir heilbrigðisþjónustu eykst

Meðalafgreiðslutími umsókna um hæli hjá Útlendingastofnun var 229 dagar á árinu 2012 samkvæmt tölum frá Rauða krossinum. Árið á var meðalafgreiðslutíminn 178 dagar. Það tók innanríkisráðuneytið að meðaltali 341 dag að úrskurða í kærumálum vegna hælismála á árinu 2012 en við 210 daga árið 2011.

„Þegar biðtíminn er svona langur og málin safnast upp þá skiptir aðbúnaðurinn ekki eins miklu máli. Þótt aðbúnaðurinn væri þannig að þú byggir á hótelsvítu þá er biðin alltaf mjög erfið. Óvissuþátturinn er það sem tekur öll völdin. Aðgengi að vinnu er lítið fyrir hælisleitendur og þeir hafa ekki nóg aðgengi að heilbrigðis- og sálfræðiþjónustu. Þetta eru allt þættir sem þörfin eykst fyrir því lengri sem málsmeðferðin er. Því lengri tíma sem hælisleitendur þurfa að bíða eftir úrlausn því meiri áhrif hefur sú bið á líkamlega og andlega heilsu,“ segir Sólveig.

Rauði krossinn vinnur félagslegt starf með hælisleitendum og skipuleggur heimsóknir til þeirra og veitir ráðgjöf varðandi málsmeðferð.

„Kerfið hefur einhvern veginn hlaðið utan á sig og málsmeðferð er óhemjulöng. Það virðist ekki nást að vinda ofan af því og þetta er orðið stærsta vandamálið í þessum málaflokki í dag,“ segir Sólveig.

Málefni hælisleitenda eru efst á baugi hjá nýskipuðum þingmannahópi um …
Málefni hælisleitenda eru efst á baugi hjá nýskipuðum þingmannahópi um heildarendurskoðun laga um innflytjendur. mbl.is/Ómar
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert