Brutust inn og náðust á mynd

„Ég var úti á sjó þegar þetta gerðist en það var fólk sem hringdi í mig og lét mig vita af þessu,“ segir Steinar Sigurgeirsson sjómaður í samtali við mbl.is en hann varð fyrir því síðastliðinn sunnudag að brotist var inn þar sem hann hefur aðsetur á Hólabrekku á Garðskaga.

Brotist var inn í útihús á staðnum og draslað til innandyra. Ýmsum munum í eigu Steinars var síðan stolið og þar á meðal stórri blárri loftpressu af gerðinni Adicomp og verkfærakistu. Meðfylgjandi myndir náðust af þjófunum þegar þeir óku á brott. Kerrunni sem notuð var hafði verið stolið í Sandgerði. Ekki er vitað með bifreiðina. Steinar hafði strax samband við lögreglu. Hann sagði síðan frá því á facebooksíðu sinni enda við því að búast að reynt yrði að koma þýfinu í verð.

„Ég ákvað að deila þessu til þess að erfiðara verði fyrir þá að selja þetta. Ég fékk upplýsingar um annan þeirra sem þarna voru að verki. Ég kom skilaboðum til hans þar sem ég gaf honum færi á að skila þessu en hann hefur ekki orðið við því. Ég vil bara að fólk viti að ef þetta verður boðið til kaups þá er þetta þýfi,“ segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert