Telur erlenda sérfræðinga of dýra

Lögregla kemur með Annþór í Héraðsdóm Reykjaness vegna annars máls.
Lögregla kemur með Annþór í Héraðsdóm Reykjaness vegna annars máls.

Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, mótmælti því við fyrirtöku í máli gegn Annþóri Kristjáni Karlssyni og Berki Birgissyni að erlendir sérfræðingar verði dómkvaddir. Hann sagði eðlilegra að skoða innlenda menn í stað þess að flytja inn erlenda sérfræðinga sem taki 100 þúsund á klukkustund.

Fyrirtakan fór fram í Héraðsdómi Suðurlands en málið var höfðað á hendur þeim Annþóri og Berki fyrir að valda dauða samfanga 17. maí 2012. Hvorugur þeirra var viðstaddur fyrirtökuna, og raunar ekki heldur verjandi annars þeirra.

Til stóð að reyna að ná niðurstöðu um dómskvaðningu yfirmatsmanna til að fara yfir mat réttarmeinafræðings á krufningarskýrslu og yfir skýrslu tveggja prófessora í sálfræði sem dómkvaddir voru til að greina atferli fanga á upptökum úr öryggismyndavélum.

Helgi Magnús sagðist ekki hafa séð nöfn þeirra sem fara eiga yfir skýrslu prófessoranna tveggja en taldi að ekki yrðu gerðar miklar athugasemdir við hana. Þeim þætti var hins vegar frestað til 1. apríl næstkomandi vegna þess að Helgi Magnús hafði ekki fengið upplýsingar um tillögu verjenda.

Hins vegar var farið yfir hina tvo sérfræðingana, þýska menn sem verjendur gera tillögu um að fari yfir mat réttarmeinafræðins. Helgi Magnús mótmælti þeirri tillögu harðlega. Hann sagði að kostnaðarlega væri eðlilegt að skoða fyrst dómkvaðningu íslenskra manna í stað þess að flytja inn erlenda sérfræðinga sem tækju svo 100 þúsund krónur á klukkustund. Það væri alltof mikill kostnaður.

Helgi Magnús sagðist einnig efast um að mennirnir væru hæfir til að takast á við starfið. „Ég sé ekkert í þessum stuttu CV-um þeirra sem segir mér að þeir séu sérstaklega hæfir til að gera þetta, ekkert frekar en til dæmis heimilislæknirinn minn,“ sagði Helgi Magnús og bætti við að hann teldi að leita þyrfti til þeirra sem besta þekkingu hafi á málefninu en ekki sé stokkið á val verjenda.

Hólmgeir Elías Flosason, verjandi Annþórs, sagði langsótt að segja þá ekki hæfa, ferilskrá þeirra sýni þvert á móti að þeir geti vel haft mikið til málanna að leggja og hafi einmitt komið að málum sem þessum áður.

Eftir að aðilar máls höfðu reifað röksemdir sínar var málið tekið til úrskurðar. Verður úrskurður kveðinn upp við næstu fyrirtöku, þ.e. 1. apríl næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert