Snjóflóð féll á Grenivíkurveg

mbl.is/Jakob Þór Möller

Mikill snjór og ófærð hefur sett samgöngur víða um land úr skorðum en svo langvarandi ófærð á Norðurlandi hefur ekki orðið í mörg ár. Snjóflóð féll til dæmis á Grenivíkurveg, mitt á milli Víkurskarðs og Grenivíkur, nú í kvöld en ófært hefur verið til Grenivíkur í allan dag.

Jakob Þór Möller býr í nánd við Grenivík og var á leið heim þegar hann tók eftir snjóflóðinu, sem féll fyrir ofan Fagrabæ. Í samtali við mbl.is segir hann að það hafi verið um þrjátíu metra breitt og tveggja til þriggja metra hátt. Hann tók myndirnar sem fylgja fréttinni.

Það er bæði ófært og stórhríð á flestum leiðum austan Eyjafjarðar og á Öxnadalsheiði. Lokað er um Héðinsfjarðargöng og einnig um Ólafsfjarðarmúla vegna snjóflóðahættu, að því er segir í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Skólahald á svæðinu hefur að mestu fallið niður í dag.

Áfram er vonskuveður um allt norðan- og austanvert landið og er ekki breytinga að vænta á Norðurlandi fyrr en í fyrramálið, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni.

mbl.is/Jakob Þór Möller
mbl.is/Jakob Þór Möller
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert