„Ég er gjörsamlega gáttaður“

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna. mbl.is/Kristinn

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, segir að innlegg Orkustofnunar til frekari vinnu á sviði verndar annars vegar og mögulegar nýtingar á virkjunarkostum hins vegar veki furðu. Með þessu sé öll vinnan að rammaáætluninni sett í fullkomið uppnám.

Eins og greint hefur verið frá hefur Orkustofnun sent verkefnastjórn um rammaáætlun lista yfir þá virkjanakosti sem stofnunin hyggst leggja fram tillögur um. 91 virkjanakostur er á listanum, þar af eru 28 nýir.

„Í raun er verið að senda vinnu verkefnisstjórnar um rammaáæltun, staðfestingu Alþingis á þeirri vinnu og lögum um rammaáætlun langt nef. Ég er gjörsamlega gáttaður á þessu,“ sagði Steingrímur á Alþingi í dag.

Hann telur að Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, eigi að gefa þinginu skýrslu um þessa stöðu, eða láta í það minnsta eitthvað í sér heyra.

„Ef hann gerir það ekki verður ekki betur séð en að ráðherrann ætli að láta bjóða sér þessa niðurstöðu,“ nefndi Steingrímur.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, gerði nýjar tillögur Orkustofnunarinnar einnig að umtalsefni. Hún sagði að þær vektu spurningar um þau ferli sem unnið hefði verið eftir við gerð rammaáætlunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert