„Ég ætlaði aldrei að skera hann“

Gísli Þór Gunnarsson í Héraðsdómi Reykjavíkur þegar Stokkseyrarmálið var tekið …
Gísli Þór Gunnarsson í Héraðsdómi Reykjavíkur þegar Stokkseyrarmálið var tekið fyrir.

Aðalmeðferð í máli ríkissaksóknara gegn tveimur karlmönnum og konu hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Í málinu eru mennirnir tveir meðal annars ákærðir fyrir að hafa ráðist á 38 ára gamlan vændiskaupanda og skorið hann á háls. Annar játaði sök en sagðist ekki hafa ætlað að skera manninn.

Maðurinn sem játaði sök heitir Gísli Þór Gunnarsson en hann hlaut nýverið dóm fyrir aðild sína að Stokkseyrarmálinu svonefnda. Í málinu sem tekið var fyrir í morgun er hann ákærður fyrir fjársvik og tvær líkamsárásir. Hann játaði að mestu leyti sök við þingfestingu málsins og eins við upphaf aðalmeðferðar í morgun.

Atburðarrásin í 1. lið ákæru var með þeim hætti að sett var inn auglýsing á Rauða torgið um kynlífsþjónustu, 38 ára karlmaður svaraði auglýsingunni en var grunlaus um að til stæði að hafa af honum fé en ekki veita umbeðna kynlífsþjónustu. Maðurinn mælti sér mót við konuna sem svaraði auglýsingunni og hittust þau í Kópavogi. Maðurinn opnaði hurð bifreiðarinnar og rétti konunni fjörutíu þúsund krónur í reiðufé en í stað þess að setjast upp í bíl mannsins hljóp konan burtu.

Á sama augnabliki settust mennirnir tveir inn í bílinn. Annar við hlið vændiskaupandans og Gísli Þór fyrir aftan hann.

Örin vel greinileg

Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, spurði Gísla Þór út í það hver áætlunin hafi verið og hvað gerðist í bílnum. „Ég man ekki nákvæmlega planið, ég var mjög ruglaður á því þarna. Ég settist inn í bílinn og man ekki hvort ég hafi ætlað að taka veskið hans.“

Spurður um hnífinn sem Gísli var með sagði hann: „Já, en ég var ekki búinn að ákveða að skera hann á háls þegar ég settist inn í bílinn.“ Hann sagði tilgang þess að vera með hnífinn þann að ógna, í hvaða tilgangi gat hann þó ekki svarað. Hann neitaði fyrir það að til hafi staðið að ræna manninn frekara fé. „Nei og ég ætlaði aldrei að skera hann heldur. Hann skarst í látunum.“

Gísla er í ákæru gefið að sök að hafa skorið manninn þannig að hann hlaut tvo skurði, annars vegar frá vinstra kjálkabarði og skáhallt niður á við í átt að hálsæðum og hins vegar þvert á hálsinn í átt að barkanum. Maðurinn kom fyrir dóminn í morgun og voru ör hans greinileg.

Ætluðu að hræða manninn

Hinn maðurinn neitaði sök og sagðist ekki hafa vitað af hnífnum. Gísli Þór var einnig spurður út í þátt mannsins. „Hann settist með mér upp í bíl en vissi ekki einu sinni að ég var með hníf.“ Spurður um það hvað hinn maðurinn hafi sagt þegar hann sá hnífinn sagði Gísli Þór: „Hann öskraði „Hvað ertu að gera maður?““

Helgi Magnús spurði Gísla Þór út í framburð hans hjá lögreglu en við skýrslutöku sem tekin var skömmu eftir árásina sagði Gísli að þeir hafi rætt saman um að ræna vændiskaupandann. Gísli brást illa við þessari upprifjun og neitaði að skýra það út hvers vegna hann bendlaði félaga sinn við málið í skýrslutöku að ástæðulausu. Hann tók það skýrt fram að skýrslan hjá lögreglu væri röng.

Í skýrslutöku yfir hinum manninum sagði hann að til hafi staðið að hræða vændiskaupandann í því skyni að hann myndi ekki elta konuna eftir að hún hljóp burtu með peningana hans. Hann sagðist ekki hafa vitað af hnífnum og að honum hafi brugðið mikið þegar Gísli brá honum á loft inni í bílnum. Þá hafnaði hann því alfarið að rætt hefði verið um að ræna vændiskaupandann. 

Stefán Karl Kristjánsson, verjandi mannsins, spurði nánar um viðbrögð hans þegar Gísli tók hnífinn upp. „Ég tók í höndina á honum og reyndi að taka hnífinn af honum.“ Og í framhaldi af því að maðurinn skarst: „Hann var að reyna komast út úr bílnum en var fastur í beltinu. Ég losaði beltið hans þannig að hann datt út. Ég henti svo símanum í hann og sagði honum að hringja á sjúkrabíl.“ Einnig rámaði honum í að hafa boðist til að keyra manninn á slysadeild.

Vissi að vændiskaup væru ólögleg

Eins og áður segir kom vændiskaupandinn einnig fyrir dóminn í morgun. Hann játaði að hafa svarað auglýsingunni og mælt sér mót við konuna. Hann viðurkenndi án þess að blikna að til hafi staðið að kaupa af henni kynlífsþjónustu og sagðist vel hafa vitað að það væri ólöglegt. Engu að síður hafi hann ætlað að kaupa vændi.

Maðurinn svaraði að miklu leyti spurningum með einsatkvæðisorðum. Hann lýsti því aldrei sjálfur árásinni en játaði og neitaði á víxl þegar hann var spurður. Hann tók undir málflutning verjenda að miklu leyti, meðal annars að símanum hafi verið kastað í hann. „Ég náði ekki að grípa og síminn datt í jörðina. Ég fór að leita að honum og náði að pakka honum saman og hringdi þá í 112.“

Hann svaraði því einnig til að aðeins annar maðurinn hefði ráðist á sig. Hinn hefði ekki verið með hótanir eða neitt slíkt og vissi líklega ekki hvað var í gangi. „Hann sagði hér sjálfur áðan að honum hefði brugðið þegar hnífnum var beint að þér,“ sagði Stefán Karl um skjólstæðing sinn. Vændiskaupandinn svaraði: „Já, ég held að það sé alveg rétt.“

„Alltaf einhverjir karlar að hringja“

Þegar kom að auglýsingunni sjálfri var upplýst að ekkert ákærðu setti auglýsinguna inn heldur hafi vinkona þeirra gert það nokkrum vikum fyrir árásina. Símanúmer mannsins sem neitaði sök var svo gefið upp í auglýsingunni. Stefán Karl, verjandi hans, spurði um afleiðingar þess að auglýsingin var sett inn. „Það voru alltaf einhverjir karlar að hringja í mig. Þetta var fyndið fyrstu tvö kvöldin en svo fór þetta að vera pirrandi. Ég lét [konuna sem setti auglýsinguna inn] heyra það og hún fór að gráta og sagðist hafa týnt lyklinum.“ Sökum þessa hafi ekki verið hægt að taka auglýsinguna út.

Báðir mennirnir sem ákærðir eru lýstu því fyrir dóminum að þeir væru að vinna í sínum málum. Gísli Þór sagðist vera á meðferðargangi á Litla-Hrauni, væri í skóla og að vinna. Hinn maðurinn sagðist hafa verið edrú síðan í september, hann væri í Krossinum og á fullu í AA.

Á Akureyri en ekki í dómsal

Verjendur í málinu kröfðust þess í síðasta mánuði að 1. kafla ákærunnar yrði vísað frá en þar er öllum gefið að sök fjársvik. Verjandi konunnar sagði þá að vanefnd í viðskiptum sem varði refsingu geti aldrei notið verndar réttarvörslukerfisins. Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði hins vegar kröfunni og er því sá ákæruliður enn inni í málinu. 

Til stóð að klára aðalmeðferðina fyrir hádegið í dag en af því varð ekki þar sem konan sem ákærð er í málinu er stödd á Akureyri. Dómari undraðist þetta enda hefði hún verið boðuð fyrir dóm á þessum tíma og verið það fyllilega ljóst. Það fari ekki eftir hentisemi sakborninga hvenær mál séu tekin fyrir. Engu að síður kom ekki annað til greina en að fresta málinu og stendur til að taka skýrslu af konunni og flytja málið 9. apríl næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert