Opnað yrði á refsilaus fjársvik

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari sækir málið af hálfu ákæruvaldsins.
Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari sækir málið af hálfu ákæruvaldsins. Morgunblaðið/Andri Karl

Óyndisfólki verður gefið færi á að svíkja sér að refsilausu fé út úr vændiskaupendum vísi Héraðsdómur Reykjavíkur - og eftir atvikum Hæstiréttur - frá 1. lið ákæru í máli ríkissaksóknara gegn þremur einstaklingum eins og krafist er. Þetta sagði vararíkissaksóknari fyrir dómi í morgun.

Í málinu eru tveir karlmenn og ung kona ákærð. Fólkinu er gefið að sök að hafa sett inn auglýsingu um kynlífsþjónustu í dagblað og hitt karlmann sem svaraði auglýsingunni. Í stað þess að veita þá þjónustu sem auglýst var stal konan fjörutíu þúsund krónum af vændiskaupandanum. Mennirnir réðust svo í kjölfarið á vændiskaupandann og eru í ákæru sagðir hafa ætlað að ræna hann.

Verjendur kröfðust þess að 1. lið ákærunnar verði vísað frá en í honum er fólkinu gefið að sök fjársvik. Jóhanna Sigurjónsdóttir, verjandi konunnar, flutti málið fyrir hönd verjenda. Hún sagði skjólstæðing sinn vera fyrir dómi vegna þess að hún veitti ekki manninum kynlífsþjónustuna sem hann vænti. Eini möguleiki hennar til að losna undan refsiábyrgð í málinu hafi því verið að standa við þá þjónustu. „Hér horfir eins við og þegar kaupandi fíkniefna fær ekki efnin afhent þrátt fyrir að hafa greitt fyrir þau,“ sagði Jóhanna og að vændiskaup njóti ekki réttarverndar.

Hún benti á að vændiskaup varði refsingu allt að einu ári og því hafi vændiskaupandinn framið refsiverðan verknað. Konunni eigi hins vegar ekki að gera refsingu fyrir sinn þátt í málinu. „Vanefnd í viðskiptum sem varða refsingu getur aldrei notið verndar réttarvörslukerfisins.“

Þá vísaði hún til úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur frá 4. október 2013. Í því máli var 16 ára stúlka ákærð fyrir sama verknað, þ.e. að hafa boðið vændi en stolið peningunum. Var það mat héraðsdóms að vændiskaup mannsins nytu ekki réttarverndar. „Vændiskaupandinn gat ekki vænst verndar refsivörslunnar þótt um viðskiptin hafi farið eins og lýst er í ákærunni.“

Þá sagði að eini möguleiki stúlkunnar til að losna frá refsiábyrgð hefði verið sá að standa við kynlífsþjónustuna. „Að mati dómsins er sú niðurstaða ótæk.“

Stóð aldrei til að veita þjónustuna

Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, benti hins vegar á að aðeins sé um forsendur héraðsdóms að ræða í málinu sem Jóhanna vísaði til. Úrskurður héraðsdóms hafi verið kærður til Hæstaréttar en þar sem kæran uppfyllti ekki öll skilyrði laga um meðferð sakamála vísaði rétturinn málinu frá. Því hafi úrskurðurinn ekki mikið fordæmisgildi.

Hann sagði einnig að forsendur héraðsdóms í því máli hafi verið byggðar á misskilningi. Konan sé ekki ákærð fyrir að efna ekki það sem hún lofaði, það séu enda ekki fjársvik. Hann vísaði í ákvæði 248. gr. almennra hegningarlaga þar sem segir: „Ef maður kemur öðrum manni til að hafast eitthvað að eða láta eitthvað ógert með því á ólögmætan hátt að vekja, styrkja eða hagnýta sér ranga eða óljósa hugmynd hans um einhver atvik, og hefur þannig fé af honum eða öðrum, þá varðar það fangelsi allt að 6 árum.“

Ennfremur sagði Helgi að að gera verði greinarmun á vændiskaupunum annars vegar og svo fjársvikunum. „Í þessu tilviki er búið að vekja þá hugmynd hjá viðkomandi að hann muni fá kynlífsþjónustu í stað greiðslu, en það stóð aldrei til að efna þann samning. Það var ekki þannig að hún vildi hverfa frá samningnum heldur kviknaði ásetningurinn til svikanna áður en tekið var við fénu. Það stóð ekki til að efna samkomulagið.“

Þá nefndi hann á að ef staðið hefði til að efna samkomulagið en konan hætt við það þá hefði hún getað rétt viðkomandi peninginn aftur. Hún hefði getað leiðrétt þetta ferli sem hún setti í gang. Hún hafi hins vegar tekið peninginn og hlaupið burtu. Það hefði hún ekki gert nema vegna þess að það stóð aldrei til að veita þjónustuna heldur hafa fé út úr manninum.

Vændiskaupin sjálf verði að taka út fyrir sviga í þessu máli, en með því sé ekki veita vændiskaupendum réttarvernd. „Annars værum við að gefa þarna óyndisfólki færi á því að svíkja fé út úr mönnum, sem þannig er háttað með að þeir sjá sér hag af því að kaupa kynlífsþjónustu, að refsilausu. Er það staða sem kemur til greina? Nei, sú túlkun getur ekki staðist,“ sagði Helgi.

Hann sagði að sömu rökum ætti að vísa allri ákærunni frá því maðurinn hafi verið réttlaus vegna vændiskaupanna þegar á hann var ráðist og hann skorinn á háls. Það sé hreinlega kolrangt að nálgast þetta frá því að konan hafi ekki efnt kynlífsviðskiptin. Hún hafi svikið fé út úr manni og þess vegna sé hún ákærð.

Að ræðum loknum var krafan tekin til úrskurðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert