Samningurinn stórt skref í rétta átt

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra.
Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, segir að kjarasamningur ríkisins við framhaldsskólakennara, sem skrifað var undir síðdegis í dag, sé stórt skref í þá átt að efla hér lífskjör.

„Það að við náum þeim markmiðum að fleiri nemendur klári skólann á tilsettum tíma og færum okkur nær því sem gengur og gerist í öllum þeim löndum sem við berum okkur saman við hvað varðar námslengdina - það hefur augljóslega gríðarleg áhrif til eflingar á lífskjörum í landinu.

Þessi samningur, og því segi ég að þetta sé tímamótasamningur, styður við þessa þróun með mjög afgerandi hætti.

Vinnumatinu verði breytt

Aðspurður segist Illugi vera mjög ánægður með þennan „tímamótasamning“.

„Það eru mjög miklar breytingar. Þær felast meðal annars í því að það er verið að lengja skólaárið og afnema skilin á milli prófatíma og kennslutíma, sem eru mjög mikilvægar breytingar. En jafnframt er lagður grunnur að því að breyta vinnumatinu, og þá í samræmi við gildandi lög,“ segir hann.

Hann bætir við að það hafi ekki tekist hingað til. Gangi það hins vegar vel, sem ráðherrann gerir sér vonir um, erum við í öllum færum til þess að efla skólastarfið, nýta tíma nemendanna - þar með krafta kennaranna - og fjármagnið betur.

Hann segir að samkomulagið geri ríkinu nú það fært að gera breytingar á námstíma til stúdentsprófsins. „Þetta gerir það auðveldara og mun flýta fyrir því. En það er auðvitað þróun sem verður gerð í skrefum og mun taka tíma.

En með þessum samningi er lagður grundvöllur fyrir því að við getum haldið þeirri þróun áfram með öruggum hætti,“ segir Illugi.

Greiði kennurum fyrir kerfisbreytingar

Fela launahækkanirnar, sem kveðið er á um í samningnum, ekki í sér aukinn kostnað fyrir þjóðarbúið?

„Hér er annars vegar um að ræða launahækkanir en hins vegar, og þar er meginþunginn, er verið að greiða kennurum fyrir kerfisbreytingar. Þær kosta vissulega en þær opna möguleikana á því að nýta tíma nemendanna - og þar með fjármagnið - betur,“ segir hann.

„Og það var grunnurinn fyrir því að þessi leið væri möguleg. Að það færi saman að við keyptum af kennurunum þessa þætti sem ég hef talið hér upp og þar með gert okkur mögulegt að breyta framhaldsskólakerfinu í þá átt sem ég hef verið að tala fyrir.

Byggi undir þróun lífskjara í landinu

Þannig að vissulega þýðir þetta hærri laun til kennaranna, en því mætum við með möguleikum til þess að nýta betur tíma nemendanna,“ nefnir hann.

Niðurstaðan sé því sú að við fáum betur launaða kennara, en nemendurnir, og þar með öll þjóðin, fær betra skólakerfi.

Illugi segist jafnframt hafa lagt á það áherslu að ef vilji standi til þess að skapa hér lífskjör sem eru á við það sem best gerist í þeim löndum sem við berum okkur gjarnan saman við, þá verði menntakerfið okkar að standa öðrum menntakerfum snúninginn.

„Með þessum samningnum, og þeim breytingum sem eru samfara honum, þá erum við að stíga mjög stórt skref í þá átt. Og þar með að byggja undir þróun lífskjara í landinu.“

Boðið var upp á vöfflur í húsi ríkissáttasemjara í dag.
Boðið var upp á vöfflur í húsi ríkissáttasemjara í dag. mbl.is/Ómar
Aðalheiður Steingrímsdóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara, Magnús Pétursson ríkissáttasemjari og Gunnar …
Aðalheiður Steingrímsdóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara, Magnús Pétursson ríkissáttasemjari og Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert