„Þetta er sértæk aðgerð“

Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Rósa Braga

Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að skuldaleiðrétting ríkisstjórnarinnar sé mjög sértæk aðgerð, en ekki almenn, eins og margir stjórnarliðar hafa haldið fram.

„Í þessari aðgerð sem er hér til umræðu eru undanskilin námslán, það er afmarkað tiltekið tímabil, það er ekki tekið tillit til lögmætra gengistryggðra lána, það er ekki tekið tillit til óverðtryggðra lána og ekki heldur tekið tillit til þar sem um er að ræða leiguhúsnæði,“ sagði hann í umræðum á Alþingi í kvöld.

Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, taldi hins vegar að aðgerðin væri almenn. Hún snerti sjötíu þúsund heimili en væri þó ekki altæk. „Hún er ekki lausn á öllum vandamálum allra sem eru í öllum mögulegum aðstæðum. Það er hún ekki,“ sagði hann.

„Það hefur alltaf verið sagt að hér stæði til að leiðrétta stökkbreytt gengistryggð húsnæðislán með almennri aðgerð og það er það sem þetta snýst um,“ sagði Frosti.

Vilhjálmur benti einnig á að aðgerðin myndi fela í sér aukið peningamagn í umferð. 

„Mér virðist sem svo að þessi aðgerð sé peningaprentun sem nemur 5% af landsframleiðslu og líklega 20-25% af peningamagni í umferð. Hvernig má það vera að þessi aðgerð sé hlutlaus með tilliti til verðbólgu?“ spurði Vilhjálmur.

Frosti sagði að áhyggjur Seðlabanka Íslands lytu til dæmis ekki að því að um væri að ræða aukningu á peningamagni.

„Bundið peningamagn sem nú er hjá slitabúum kemst á vissan hátt hugsanlega í umferð en það kemst aðeins í umferð ef fólk notar það magn til að taka ný lán. Að öðru leyti er um enga peningaaukningu að ræða, heldur þvert á móti peningaminnkun,“ sagði Frosti.

Enn er rætt um frumvarp ríkisstjórnarinnar um leiðréttingu höfuðstóls verðtryggðra húsnæðislána en Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, mælti fyrir frumvarpinu nú síðdegis.

Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert