Ruslabílar borgarinnar við 365

Ruslabílar í röðum við húsnæði 365.
Ruslabílar í röðum við húsnæði 365. mbl.is/Árni Sæberg

Starfsfólk Sorphirðu Reykjavíkur safnaðist í morgun saman fyrir utan höfuðstöðvar 365 í Skaftahlíð til að mótmæla því sem það segir rangan fréttaflutning. Öllum ruslabílum borgarinnar var lagt fyrir utan húsið.

Guðrún Magnea Guðmundsdóttir, flokksstjóri hjá Sorphirðunni, segir í samtali við mbl.is að mótmælin snúist um frétt sem birt var á Vísi í gær um að starfsmenn Sorphirðunnar hafi ítrekað reynt að brjótast inn hjá Heiðari Helgusyni knattspyrnumanni. 

„Það var ekkert við okkur rætt, engin rannsókn gerð eða eitt eða neitt. Þessu er bara fleygt fram eins og staðreynd.“ Hún segir að allar athugasemdirnar sem skrifaðar hafi verið við fréttina hafi svo reitt starfsmenn Sorphirðunnar til mikillar reiði. „Við erum gerð að ótíndum glæpamönnum. Við ætlum ekki að sitja þegjandi undir því.“

Guðrún segir að allir starfsmenn Sorphirðunnar og allir ruslabílar borgarinnar hafi verið við húsnæði 365 í morgun. „Það er mikill samhugur meðal okkar.“

Guðrún segist gjarnan vilja heyra í þeim sem stjórna Vísi og helst vilji hún að fréttin verði tekin út. „Ég myndi vilja að þeir bæðust opinberlega afsökunar.“

Spurð hvað hafi raunverulega gerst við heimili Heiðars segir Guðrún: „Vísismenn kynntu sér ekki vinnulag okkar. Það sem var í gangi var að það var nýr starfsmaður þarna að störfum. Hann vissi ekki hvar ruslatunnurnar við húsið voru. Hann gengur hringinn í kringum húsið og er að leita að tunnunum. Hann kemur svo inn í bíl og nær í lykil, því hann hélt að tunnurnar væru inni í læstum skáp. Það var verkfærið sem hann átti að vera að ná í samkvæmt frétt Vísis.“

Allir ruslabílar borgarinnar við höfuðstöðvar 365 í morgun.
Allir ruslabílar borgarinnar við höfuðstöðvar 365 í morgun. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert