„Blessunarlega ræð ég ekki öllu í Samfylkingunni“

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. Norden.org/Magnus Fröderberg

„Það eru ólík sjónarmið innan Samfylkingarinnar gagnvart Þjóðkirkjunni. Það er ekki þannig að stuðningur við Þjóðkirkju samrýmist ekki hugmyndum jafnaðarstefnunnar, en ekki heldur sjálfgefið að hér sé Þjóðkirkja og eðlilegt að samband ríkis og kirkju taki breytingum frá einum tíma til annars.“

Þetta segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, á Facebook-síðu sinni í kvöld en stjórn Ungra jafnaðarmanna, ungliðahreyfingar flokksins, sendi frá sér ályktun í dag þar sem flokksformaðurinn var gagnrýndur fyrir ummæli sem hann lét falla í sjónvarpsþættinum Mín skoðun á Stöð 2 í gær. Þar sagist hann lýsti sig hlynntan því að Þjóðkirkja yrði áfram hér á landi með tengsl við ríkisvaldið. Ungir jafnaðarmenn sögðu í ályktuninni hins vegar að slíkt væri tímaskekkja.

„Margir félagar í Samfylkingunni vilja fullan aðskilnað ríkis og kirkju, margir styðja Þjóðkirkjufyrirkomulagið, margir Samfylkingarfélagar eru virkir innan Þjóðkirkjunnar og einhverjir vilja Þjóðkirkju en samt annað fyrirkomulag samskipta ríkis og kirkju en nú er. Meirihluti þjóðarinnar vill ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá. Samfylgd þjóðar og kirkju er löng og hluti íslenskrar þjóðmenningar og hugmyndasögu,“ segir hann ennfremur.

Þá segir Árni að þó hann telji persónulega rétt að halda í Þjóðkirkjufyrirkomulagið segi það hins vegar ekkert um stefnu Samfylkingarinnar í málinu. „Blessunarlega ræð ég ekki öllu í Samfylkingunni og geri enga kröfu til þess. Stefna Samfylkingarinnar er málamiðlun sjónarmiða, því Samfylkingin er fjöldahreyfing sem vill skapa rúm fyrir ólík sjónarmið.“ Vísar hann síðan í stefnu flokksins en þar sé meðal annars lögð áhersla á „grundvallarumræðu um samband ríkis og kirkju og þar á Samfylkingin sem stjórnmálaflokkur að gegna virku hlutverki.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert