Fluttu 30.000 e-töflur til Íslands

Tollverðir á Keflavíkurflugvelli lögðu hald á yfir 30 þúsund e-töflur …
Tollverðir á Keflavíkurflugvelli lögðu hald á yfir 30 þúsund e-töflur í ágúst 2011. Myndin er úr safni. mbl.is/Kristinn

Mál gegn tveimur ungum karlmönnum sem eru ákærðir fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot var dómtekið fyrir Héraðsdómi Reykjaness í gær. Mennirnir eru sakaðir um að hafa í ágúst 2011 staðið að innflutningi 30.225 e-töflum (MDMA) frá Danmörku til Íslands ásamt þriðja manni.

Mennirnir sem eru ákærðir er 22 og 20 ára. Þegar brotin áttu sér stað var sá yngri aðeins 17 ára gamall og sá eldri 19 ára.

Fram kemur í ákæru, að mennirnir hafi staðið fyrir innflutningi fíkniefnisins frá Danmörku til Keflavíkurflugvallar ásamt þriðja manni, sem er ekki ákærður í þessu máli, og að það hafi staðið til að selja efnin hér á landi. 

Þá segir í ákærunni, að eldri maðurinn hafi fengið þann yngri til verksins, veitt honum leiðbeiningar um ferðatilhögun, afhent honum síma, símkort og greiðslukortið sitt til að greiða fyrir ferðakostnað og upphald. Sá eldri millifærði 364.000 krónur inn á reikning mannsins í sama skyni á tímabilinu 11.-22. ágúst 2011.

Yngri maðurinn fór til Gautaborgar, og síðar Kaupmannahafnar og Amsterdam, í því skyni að taka á móti og flytja fíkniefnin til Íslands. Í ákærunni segir að maðurinn hafi tekið á móti fíkniefnunum í Amsterdam frá þriðja manninum og flutt þau til landsins sem farþegi með flugi frá Kaupmannahöfn. Efnin voru falin í farangri hans þar sem tollverðir fundu þau við komu hans til Keflavíkurflugvallar 23. ágúst 2011.

Eldri maðurinn er jafnframt ákærður fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa 7. september 2011 að haft í vörslum sínum 1,6 grömm af amfetamíni sem hann framvísaði til lögreglumanna og eina e-töflu sem lögreglan fann við leit.

Þess er krafist að mennirnir verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Þá er þess krafist að öll fíkniefnin verði gerð upptæk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert