Kæruleið fyrir börn tekur gildi hjá Sameinuðu þjóðunum

Íslenska ríkið hefur ekki enn skrifað undir eða fullgilt bókunina.
Íslenska ríkið hefur ekki enn skrifað undir eða fullgilt bókunina. © UNICEF

Í nóvember á þessu ári eru 25 ár liðin frá því að Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna tók gildi. Á þeim aldarfjórðungi sem liðinn er frá því sáttmálinn var samþykktur er hann orðinn útbreiddasti mannréttindasáttmáli heims.

Með fullgildingu Barnasáttmálans samþykkja aðildarríki að axla ábyrgð á að tryggja börnum alþjóðleg mannréttindi, líkt og tilgreint er í Barnasáttmálanum.

Vettvangur til að leita réttar síns

Um nokkurt skeið hefur staðið til að Sameinuðu þjóðirnar komi á fót sjálfstæðri kæruleið vegna mannréttindabrota gegn börnum.

Hugmyndin er sú að skapa vettvang fyrir börn og aðstandendur þeirra til að þau geti komið á framfæri athugasemdum og/eða kvörtunum til Sameinuðu þjóðanna í tilvikum þar sem brotið hefur verið á mannréttindum barnanna.

Bókunin tekur gildi

Í gær, mánudaginn 14. apríl, varð þessi vettvangur að veruleika. Þá öðlaðist þriðja viðbótarbókun Barnasáttmálans um sjálfstæða kæruleið barna (The Optional Protocol to the Convention on the Rights of the Child on a communications procedure, OP3) gildi, segir í frétt á vef UNICEF.

Bókunin skapar tækifæri fyrir börn til að leita réttar síns hjá Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna ef réttindi þeirra eru ekki varin í landinu sem þau búa í og þau hafa sótt rétt sinn á öllum dómsstigum þess lands.

Þessi tímamót eru fagnaðarefni, en einnig tilefni til umhugsunar.

Íslenska ríkið hefur ekki skrifað undir

Þó að viðbótarbókunin hafi nú formlega tekið gildi innan mannréttindakerfis Sameinuðu þjóðanna, er hún ekki enn aðgengileg fyrir flest börn í heiminum.

Hvert ríki þarf að fullgilda bókunina innan sinnar lögsögu til að hún öðlist gildi fyrir börn í landinu. Sem stendur hafa Albanía, Bólivía, Kosta Ríka, Gabon, Þýskaland, Svartfjallaland, Portúgal, Slóvakía, Spánn og Tæland fullgilt bókunina.

Þar að auki hafa 37 ríki skrifað undir hana og stefna að því að fullgilda hana á næstunni. Meðal þeirra ríkja sem skrifað hafa undir bókunina er eingöngu eitt Norðurland, Finnland. Íslenska ríkið hefur ekki enn skrifað undir eða fullgilt bókunina en UNICEF á Íslandi vonar að það verði gert í nánustu framtíð svo börn á Íslandi geti leitað réttar síns til Barnaréttarnefndarinnar, segir í frétt UNICEF.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert