Gengu píslargöngu fyrir 20 árum

Snæbjörn Pétursson, Jóhann Gestsson, Steinar Sigurðsson, Hafdís Finnbogadóttir að leggja …
Snæbjörn Pétursson, Jóhann Gestsson, Steinar Sigurðsson, Hafdís Finnbogadóttir að leggja af stað í gönguna. Það vantar hér aðeins Örn Hauksson úr fyrsta gönguhópnum. mbl.is/Birkir Fanndal

Árviss píslaganga var gengin umhverfis Mývatn í dag samkvæmt hefð sem hófst 1994 þegar fjórir vinnufélagar í Kísiliðjunni gengu hring um Mývatn á þessum degi í norðan hríðarveðri.

Í tilefni þess að nú eru 20 ár frá fyrstu göngunni hittust þessir fjórir félagar og hófu gönguna ásamt um 40 öðrum, sem flestir ganga, hver með sínum takti.

Nokkrir skokkarar eru með og nokkrir eru hjólandi. Einhverjir hafa gengið í fleiri skipti, enginn þó líkt því svo oft sem Reykdælingurinn Jakobína Björnsdóttir, en hún hefur gengið flest árin.

Gangan hófst að vanda kl. níu að morgni, stundarfjórðungi áður var stutt helgistund í Reykjahlíðarkirkju sem þeir sr. Örnólfur J. Ólafsson, sr. Þorgrímur Daníelsson og Dagur Þorgrímsson leikmaður önnuðust.

Mikið hvassviðri var hér sl. nótt en með morgninum er stormurinn að ganga niður. Bjart er yfir, sól og 3° hiti.

Eftirlitsmaður með göngunni er Finnur Baldursson, hann fylgir göngufólkinu á birgðabíl. Finnur hafði vísu á hraðbergi:

Píslagöngu eitt sinn enn

menn arka sem á vorin.

Ganga á ný þeir mætu menn

sem mörkuðu fyrstu sporin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert