Miklir möguleikar taldir í koltrefjunum

Efnið er notað í framleiðslu á margskonar iðnaðarvörum, m.a. í …
Efnið er notað í framleiðslu á margskonar iðnaðarvörum, m.a. í sumum tegundum hjá bílaframleiðandanum BMW í Þýskalandi. AFP

Þegar kemur að koltrefjaframleiðslu er Ísland meðal allra samkeppnishæfustu landa hvað kostnað varðar. Að auki er lega Íslands að mörgu leyti mjög hagstæð, þar sem fyrirtæki staðsett á Íslandi geta þjónað eftirspurn bæði frá Bandaríkjunum og Evrópu og jafnvel víðar. Er hér um mjög verðmæta afurð sem þolir flutningskostnað langar leiðir.

Þetta er meðal þess sem kom fram í svari Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, við fyrirspurn Össurar Skarphéðinssonar um koltrefjaframleiðslu á Íslandi. Í svari sínu vitnar ráðherra til úttektar erlendra ráðgjafa frá árinu 2012 á kostnaðarlegri samkeppnishæfni Íslands í samanburði við helstu samkeppnissvæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Íslandsstofa hefur verið að kynna þessar niðurstöður á ráðstefnum erlendis um koltrefjaframleiðslu og á fundum með koltrefjaframleiðendum og notendum koltrefja, t.d. bifreiða- og vindmylluframleiðendum.

Fullt tilefni til bjartsýni

Samkvæmt svari ráðherra gefa viðbrögð þessara aðila fullt tilefni til bjartsýni um að koltrefjaframleiðsla hefjist á Íslandi í náinni framtíð. Viðræður við stóra notendur koltrefja leiddi til athugunar tveggja framleiðenda á fýsileika þess að reisa hér verksmiðju. Annar aðilinn kaus að staðsetja verksmiðjuna í Bandaríkjunum en hinn er enn að meta hvort Ísland sé hentugur kostur. Þá hafa orkufyrirtækin átt í viðræðum við erlenda koltrefjaframleiðendur vegna hugsanlegra verkefna hér á landi. Talað hefur verið um verksmiðju sem þyrfti 15-20 MW raforku og gæti skapað 80-100 varanleg störf, auk afleiddra starfa.

Hrósar Skagfirðingum

Ragnheiður Elín segir í samtali við Morgunblaðið að framleiðsla á koltrefjum sé vaxandi iðnaður í heiminum. Efnið sé notað í ýmsar vörur, eins og bíla, vindmyllur, flugvélar og fleira. Hún segir framleiðslu af þessu tagi henta vel hér á landi en það sé á endanum framleiðandinn sem velji staðsetningu, ákveði hann að velja Ísland. Það sé ekki í höndum stjórnvalda en vissulega komi nokkrir staðir til greina.

Undirbúningur að koltrefjaverksmiðju hér á landi er lengst kominn í Skagafirði. Þar var stofnað undirbúningsfélag, UB Koltrefjar, árið 2008 með þátttöku Kaupfélags Skagfirðinga, Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Gasfélagsins.

„Skagfirðingar hafa verið áhugasamir um þennan iðnað og þeim til hróss þá hafa þeir unnið heimavinnuna sína mjög vel. Það er til dæmis komin námsbraut í fjölbrautaskólanum fyrir framleiðslu á koltrefjum sem er góður undirbúningur fyrir svona iðnað. Á svæðinu er mikill áhugi á verkefninu og þverpólitískur vilji. Allt svona vinnur með þeim en á endanum er það fjárfestirinn sjálfur sem metur hvaða kostir eru bestir,“ segir Ragnheiður Elín.

Í svari sínu til Össurar bendir hún á að fríverslunarsamningurinn við Kína skapi verulegt svigrúm til framleiðslu á koltrefjum hér, þar sem 17% tollar fallla niður af viðskiptum með koltrefjar milli Kína og annarra landa ef framleitt er á Íslandi. Ragnheiður segir tækifæri skapast fyrir t.d. bandarísk, kanadísk eða evrópsk fyrirtæki að flytja koltrefjar héðan til Kína.

Innviðir klárir í Skagafirði

Stefán Vagn Stefánsson, formaður byggðarráðs Skagafjarðar, segir undirbúning enn í fullum gangi. Sveitarfélagið sé með skilgreindar iðnaðarlóðir á aðalskipulagi undir verksmiðju af þessu tagi og mikil vinna hafi farið fram til að undirbúa jarðveginn og byggja upp innviði, m.a. með því að koma á fót námsbraut í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra í koltrefjaiðnaði og plastbátafyrirtæki hefur hafið störf á Sauðárkróki. „Við erum ekki bara að keppa við önnur svæði hér á landi heldur við allan heiminn. Ríkið þarf einnig að leggja sitt af mörkum til að bæta samkeppnisumhverfið“ segir Stefán Vagn og fagnar boðuðu frumvarpi iðnaðarráðherra um ívilnanir vegna nýfjárfestinga í iðnaði.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra. mbl.is/Kristinn
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert