Allt að fimmtán stiga hiti á morgun

Allt að fimmtán stiga hiti verður norðan- og vestanlands á morgun, samkvæmt spá Veðurstofunnar. Spáð er suðaustan 3-10 m/s, en 10-15 við suðurströndina í kvöld og 15-20 þar í nótt og á morgun. Verður skýjað og þurrt að kalla sunnan- og vestanlands, en annars yfirleitt bjartviðri.

Hiti verður víða fjögur til níu stig, en sums staðar næturfrost inn til landsins. Á höfuðborgarsvæðinu er spáð vindi suðaustan 8-13 m/s og þurru að kalla. Sjá nánar á veðurvef mbl.is:

Svona er spáin næstu daga:

Á miðvikudag:

Austlæg átt 8-15 m/s hvassast syðst. Dálítil súld eða rigning með suður- og austurströndinni, en annars víða léttskýjað. Hiti 2 til 12 stig, hlýjast suðvestantil. 

Á fimmtudag:

Suðaustlæg átt, 8-13 m/s syðst, en annars 3-8. Skýjað og stöku skúrir sunnan- og austanlands, en annars bjartviðri. Hiti víða 6 til 11 stig. 

Á föstudag:

Hæg norðvestlæg eða breytileg átt og skýjað með köflum, en skúrir á stöku stað. Heldur kólnandi veður, einkum fyrir norðan. 

Á laugardag:

Norðlæg átt, svalt í veðri og smáskúrir eða él fyrir norðan, en annars bjartviðri og milt. 

Á sunnudag:

Vestlæg eða breytileg átt með úrkomu víða um land, en fremur svalt í veðri. 

Á mánudag:

Útlit fyrir norðanátt með éljum norðan- og austanlands og kólnandi veður.

Hálka á Bláfjallavegi

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er hálka á Bláfjallavegi og hálkublettir í Kjósarskarði en annars eru vegir á Suðurlandi að mestu greiðfærir.

Á Vesturlandi og Vestfjörðum eru hálkublettir nokkuð víða en krapasnjór á Hálfdáni og Hjallahálsi. Hálka er á Fróðárheiði. Á Norðurlandi eru vegir að mestu greiðfærir en þó eru hálkublettir á nokkrum útvegum.

Þá eru allar aðalleiðir á Austur- og Suðausturlandi greiðfærar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert